145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:41]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessar góðu umræður. Mér finnst það í rauninni alveg með ólíkindum að flugvöllinn í Vatnsmýri hefur ekki borið á góma, [Hlátur í þingsal.] mér finnst það skref í rétta átt. Ég vil minna á það að ég eyddi töluverðu púðri í það í fyrri ræðu að leggja áherslu á mikilvægi þess að við værum með einhverja langtímasýn og eitthvert plan. Hér var minnst á sóknaráætlun landshluta og það voru einmitt góðar aðgerðir sem þessi ríkisstjórn henti í raun bara út af borðinu. 400 milljónir voru settar í þetta í fjárlögum árið 2013, en árið 2014 í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar voru settar 15 milljónir, kannski af því að einhver annar átti hugmyndina. Það eru þessi vinnubrögð sem ég er að gagnrýna vegna þess að við erum meira og minna sammála í þessum málaflokki. Verum þá alla vega ánægð með það og vinnum saman. Ég vona að sú vinna sem nú er í gangi sem hæstv. ráðherra leiðir verði unnin þverpólitískt og í sátt og gildi lengur en fyrirhugað er. Ég vil sjá áætlun til 10, 15 ára.

Það er svo margt sem ég hefði viljað ræða hérna. Mér finnst þáttur fjölmiðla skipta máli. Hvernig eru fréttirnar af landsbyggðinni? Maður heyrir um verslunarmannahelgina: Íslendingar flykkjast út á land. Eða um góða sumarið okkar sem var, hvað, í hittiðfyrra, en þá las maður ítrekað: Landsmenn langþreyttir á veðrinu. Það er eðlilegt að fréttaflutningur fari fram á landsbyggðinni líka og það sé ekki þannig að þegar fréttamenn fara út á land þá séu þeir svona komnir út á land í heimsókn. Ég veit ekki hvort þið skiljið hvað ég á við. En víða á Norðurlöndunum er það þannig að stór hluti þeirra sem starfa hjá ríkisfjölmiðlunum er staðsettur úti á landi og vinnur sínar fréttir þaðan, ekki bara til að segja: Nú var þessi hátíð í þessu bæjarfélagi, heldur eru fréttirnar beinlínis unnar þaðan. Mér finnst það skipta máli.

Dreifing opinberra starfa finnst mér mjög mikilvæg. Þar vil ég minna á og benda á það sem Umhverfisstofnun er að gera sem ætti bara að vera normið. Það er gífurlega flott hvernig fólk þar getur unnið á því útibúi sem það kýs að vinna á. (Forseti hringir.) Ef líffræðingurinn, einhver sérfræðingur, býr á Egilsstöðum þá vinnur hann bara í útibúinu á Egilsstöðum.

(Forseti hringir.) Við þurfum miklu meiri tíma í þetta, virðulegi forseti, ég mun væntanlega ekki ná að ræða þetta í þingsal, (Forseti hringir.) ég fer kannski bara að skrifa færslur á Facebook um byggðamál, en ég þakka þessa umræðu.