145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[11:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé í nákvæmlega svona málum sem við rekumst á raunverulegu vandkvæðin í kringum lagalega stöðu staðgöngumæðrunar. Það er einkum sá þáttur sem fólk greinir á um í þessu máli. Hins vegar kemst ég að þeirri niðurstöðu fyrir sjálfan mig, og einungis fyrir sjálfan mig, eftir að hafa skoðað þetta mál, að ég get ekki látið viðhorf mín til staðgöngumæðrunar hindra hagsmuni barna. Ég met hagsmuni barnanna í þessu tilfelli meira en þá siðferðislegu afstöðu sem ég hef sjálfur til staðgöngumæðrunar.

Stóra málið í þessu er staðgöngumæðrunin en ég held að það sé ekki á þeim vettvangi þar sem við ræðum hana sérstaklega sem við þurfum að ræða hana, heldur einmitt í málum sem þessum þegar vandamálin koma fram sem eru afleiðing af viðhorfum okkar til staðgöngumæðrunar.