145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Páll Jóhann Pálsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd atvinnuveganefndar mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (síld og makríll).

1. gr. hljóðar svo: Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum:

a. Í stað orðanna „20 lestum“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 35 lestum.

b. 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Um gjald fyrir aflaheimildir vegna veiða á síld og makríl skv. 1. mgr. skal fara samkvæmt lögum um veiðigjald, nr. 74/2012.

2. gr. hljóðar svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í greinargerð kemur fram að í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VIII í lögum um stjórn fiskveiða er kveðið á um að ráðherra hafi til ráðstöfunar til sérstakrar úthlutunar 2.000 lestir af íslenskri sumargotssíld, 2.000 lestir af norsk-íslenskri síld og 2.000 lestir af makríl til smábáta. Samkvæmt 2. mgr. er heimilt að ráðstafa þessum aflaheimildum til fiskiskipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni og á útgerð þess kost að fá úthlutað fyrir hvert skip allt að 20 lestum af síld eða makríl. Samkvæmt 3. mgr. er verð á þessum aflaheimildum 8 kr. fyrir hvert kg af síld eða makríl.

Með frumvarpinu er lagt til að aukið verði það magn sem útgerð getur fengið úthlutað af síld eða makríl þannig að það verði 35 lestir í stað 20 lesta og er einnig lagt til að gildistími ákvæðisins verði framlengdur. Þá er lagt til að um gjald fyrir aflaheimildir til veiða á síld og makríl fari samkvæmt lögum um veiðigjald, nr. 74/2012.

Um þetta varð samkomulag í atvinnuveganefnd. Björt Ólafsdóttir var fjarverandi á þessum fundi en að öðru leyti stendur nefndin á bak við frumvarpið. Málið snýst í fyrsta lagi um að auka þær aflaheimildir sem sótt er um úr 20 lestum í 35. Málið er þannig vaxið að það þarf að sækja um í svokallaðan nýliðapott. Nýliðar, þeir sem ekki fá úthlutaðan makríl, geta sótt um að fá að veiða úr þessum potti. Það þarf að sækja um eigi síðar en á fimmtudegi, það er reglan hjá þeim í Fiskistofu, og fyrir þriðjudag í næstu viku þarf svo að greiða fyrir það sem fæst úthlutað þannig að úthlutunin er ekki klár fyrr en á miðvikudegi. Það má því segja að það taki viku að sækja um þessar heimildir og því þótti nefndinni magnið 20 lestir í minni kantinum þar sem veiðin hefur verið mjög mikil undanfarið.

Gjaldið hefur verið fast í lögum 8 kr. Eins og flestir vita hefur orðið verðfall á makríl þannig að makríll selst á um 50–60 kr. Ef engin breyting verður á má segja að þeir sem sækja um þennan pott og þá helst nýliðar þurfi að borga nær fjórfalt veiðigjald miðað við aðra, sem mönnum finnst ansi hart, því að þetta gjald þurfa menn að greiða áður en þeir veiða en svo eftir á greiða þeir veiðigjöld eins og aðrir af því sem veitt er.

Veiðin hefur gengið mjög vel það sem af er og þess má geta að ég leit á vef Fiskistofu í morgun og þar má sjá að línu- og handfærabátar er í rauninni eini útgerðarflokkurinn sem er nú þegar búinn að veiða sína úthlutun á fiskveiðiárinu. Aðeins er eftir að veiða það sem flutt var á milli ára, eitthvað um 1.700 tonn. Úthlutunin var 6.000 tonn og það er í raun búið að veiða það rúmlega. Aðrir skipaflokkar, svo sem vinnsluskip eða skip án vinnslu, eiga talsvert eftir af sínum heimildum. Ég held að það séu samtals um 53.000 tonn sem á eftir að veiða af úthlutuðum makrílkvóta. Því lítur nefndin svo á að þetta muni frekar stuðla að því að smábátar haldi áfram veiðum og láti reyna á það hvað makríllinn veiðist lengi fram í haustið. Nefndin trúir því að þetta muni stuðla að því að hlutur smábáta í veiðum á makríl aukist og að það verði minna eftir, helst ekki neitt, af þeim makrílheimildum sem úthlutað verður.