145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[12:05]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir afstöðu minni í stuttu máli. Við höfum verið að ræða málið í atvinnuveganefnd en ég var fjarverandi á þeim fundi þegar það var tekið út. Þess vegna var ég ekki með á málinu. Ég vil láta færa það til bókar að ég vil veg smábáta sem mestan, ég leggst ekki gegn málinu, en ég er ekki á því af þeirri prinsippástæðu að mér finnst það alltaf bagalegt og ekki ganga vel hjá þinginu þegar við erum að handstýra gjaldi eða handstýra og færa til eftir því sem hentar ýmsum málum og ýmsum atriðum í fiskveiðistjórnarmálum.

Veiðigjöld fyrir makríl eru allt of lág að mínu mati. Ég leggst ekki gegn því að smábátar fái lækkun sem samsvarar annarri lækkun. Það er ekki það sem ég leggst gegn, en ég vil að við höldum öðruvísi á þessum málum og hef fært fyrir því rök. Ég hef talað fyrir því að við skoðum markaðslausnir, sérstaklega hvað varðar makríl, og talaði fyrir því á þarsíðasta löggjafarþingi þegar við ræddum hinar nýju aflaheimildir. Þegar fara átti að kvótasetja þær færði ég fyrir því rök að ég vildi að við byðum upp hluta af makrílnum sem tilraun í því að finna hvort markaðurinn gæti ekki höndlað þessi mál betur. Ég tel að við ættum að færa okkur í smáskrefum í þá átt og makríllinn hefði verið fyrirtaksbyrjun í þeim málum.

Eins og ég segi leggst ég ekki gegn þessari breytingu sem slíkri en vil halda því til haga að ég vil sjá aðrar aðferðir við stjórn á fiskveiðikerfinu en svona handstýringu sem oft verður óttalegt fúsk. Eins og við sjáum núna er verið að redda hlutum eftir á, sem er sjálfsagt að gera við þessar aðstæður, en ég vildi óska að við hefðum önnur kerfi hér til að vinna með.