145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[12:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð alltaf svolítið hissa þegar menn ræða stjórn fiskveiða, hvort sem það er makríll eða eitthvað annað, og tala um eitthvert annað kerfi en aflahlutdeildarkerfi, sem hefur reynst okkur mjög vel. Af hverju ættum við að draga makrílinn út úr því?

Ef við rifjum aðeins upp er mjög stutt síðan makríll synti inn í lögsögu okkar. Hver er ástæðan fyrir því að við Íslendingar eigum hlutdeild í þessum heildarmakrílkvóta? Hún er sú að einhverjir tóku sig til, tóku áhættu, fóru suður í ballarhaf til að veiða makríl. Svo er eins og íslenskum stjórnmálamönnum finnist í lagi þegar við erum að ákveða hér hvernig skuli skipta og hverjir eigi að fá að veiða okkar hlutdeild í makrílkvótanum að það sé einhvers konar uppboð eða einhver sanngirni í stað þess að byggja á veiðireynslunni, að þeir sem mynduðu hana rétt fái hlutdeild. Telja menn virkilega að það borgi sig og sé eðlilegt, þó að við horfum ekki nema til stjórnarskrárinnar sem byggir á því að menn njóti þeirra réttinda sem þeir afla sér með þessum hætti, að hafa sótt sjóinn? Trúir hv. þingmaður því að það sé til bóta fyrir hagræðið og land og þjóð að fara einhvers konar uppboðsleið með makrílinn og jafnvel einhverjar aðrar tegundir sem við veiðum hér?