145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[12:23]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Páll Jóhann Pálsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég veit að við erum bæði landsbyggðasinnuð og viljum hag smábáta sem mestan. Við erum bæði á þessu máli og sammála um það og auðvitað fagna ég því, þótt við séum ekki alltaf sammála hvað varðar fiskveiðistjórnarkerfið.

Við erum alla vega sammála um það að við leggjum til að þeir smábátar eða nýliðar sem sækja í þennan pott greiði tvöfalt veiðigjald í staðinn fyrir nær fjórfalt. Við erum sammála um það. Það hefur komið fram í ræðu, ekki hjá hv. þingmanni, það var hv. þm. Björt Ólafsdóttir sem var á móti því að við værum að handstýra þessu svona, en ég vil vekja athygli á því að með þessu erum við í rauninni að horfa frá handstýringu með því að hafa fasta krónutölu þarna inni, þetta gjald færist upp og niður í takt við veiðigjaldið. Veiðigjaldið er eins og þarna er svona tæp 5, 4,7–4,8%. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvað henni finnist um það. Er hún sátt við að veiðigjald sé 5% eða vill hún sjá hærri tölu af brúttóupphæð?

Hv. þingmaður minntist á uppboðsleiðina. Ég stenst ekki mátið að spyrja hv. þingmann hvort hún geti séð fyrir sér að prófa uppboðsleiðina hjá smábátaflotanum. Ef svo er, hvernig sæi hún fyrir sér að það mundi virka hjá þessum flota? Óttast hún ekkert að þeir stærstu í þeim hópi mundu þá hreppa hnossið?