145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:41]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hana út í 19. gr. Hv. þingmanni er tíðrætt um jöfnuð og réttlæti og í 19. gr. er fjallað um þá sem dvelja á hjúkrunarheimili. Þangað fara engir nema þeir sem uppfyllt hafa færni- og heilsumat. Þeir einstaklingar sem þarna eru geta ekki hugsað um sig sjálfir og þurfa aðstoð og þjónustu. Áður hefur þetta fólk oft verið inni á sjúkrahúsum vegna þess að ekki er pláss fyrir sömu einstaklinga á hjúkrunarheimilum. Ef einstaklingur fer vegna heilsubrests á sjúkrahús er hann þar án þess að greiða fyrir það. En ef sjúklingur eða fullorðið fólk fer inn á hjúkrunarheimili vegna heilsubrests greiðir það fyrir þjónustu þar. Þeir sem hafa lífeyristekjur eða tekjur upp að ákveðnu marki, allt að 378 þús. kr. eða meira, þurfa en leggja að jafnaði 378 þús. kr. inn til hjúkrunarheimilisins.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Er fólginn jöfnuður og réttlæti í því að verða fullorðinn og hafa fengið færni- og heilsumat vegna þess að maður getur ekki séð um sig sjálfur, en ef maður er svo óheppinn að eiga annað hvort lífeyristekjur eða eignir þannig að maður hefur meiri fjárráð en grunnlífeyrir eða lífeyristekjur almannatryggingakerfisins segja til um, sé fólki mismunað sem getur í raun ekki séð um sig sjálft, og þarf að vera þarna inni? Ef fólk er svo óheppið að eiga góðan lífeyrissjóð eða eignir þarf það að greiða þar umfram aðra íbúa á sama svæði, en ef það væri á sjúkrahúsi fengi það allt frítt. Hvar er jöfnuðurinn og réttlætið í þessu kerfi, virðulegur forseti, og hv. þingmaður?