145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að spyrja um álit hv. þingmann á því hvernig best sé að meðhöndla þetta kerfi. Ég hef sjálfur verið þeirrar skoðunar lengi að eitt stærsta vandamálið, eða reyndar stærsta vandamálið við almannatryggingakerfið sé flækjustigið, sérstaklega í samhengi við önnur úrræði sem bjóðast hjá sveitarfélögum og svoleiðis. Ég, eins og aðrir þingmenn, fæ reglulega kvartanir frá notendum þessa kerfis. Þeir kvarta yfirleitt undan upphæðum og fara oft í miklar málalengingar um hvers vegna kerfið sé eins og það er og vekja athygli mína á því sem er algjörlega fáránlegt að þeirra mati. Yfirleitt hefur það nú verið þannig í gegnum tíðina að ég skil ekki hvernig endanleg niðurstaða fæst. Þetta er allt miklu flóknara en maður mundi vilja hafa það.

Þetta kerfi þarf að vera flókið að einhverju leyti. Ég held að það verði aldrei mjög einfalt. En ég hygg hins vegar að flækjustigið sé eitt stærsta vandamálið, sérstaklega þegar kemur að því að reyna að leysa þetta með einhverjum umræðum og tillögum og úrbótum. Eitt af því sem ég ætla að ræða stuttlega er að hér erum við að tala um nokkra hluti í einu. Við erum annars vegar að tala um einföldun kerfisins og hins vegar um upphæðir. Auðvitað er alltaf einhver tenging þar á milli. Væri ekki eðlilegast að takast á við verkefnið með því annars vegar að aðgreina það svolítið og einfalda, og hins vegar að reyna að gera það sanngjarnara varðandi upphæðir o.þ.h.? Hvert mat er hv. þingmanns sem formanni hv. velferðarnefndar á því? Þegar þetta er haft saman hafa mér þótt tvö ólík markmið blandast saman, annars vegar hin hefðbundnu vinstri/hægri átök um hvað sé sanngjarnt og hvað sé réttlátt, og hins vegar það markmið sem allir hljóta að eiga sameiginlegt, þ.e. að gera það einfalt. Ég hefði gaman af því að fá álit hv. þingmanns á því.