145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina, og já, kerfið er svo sannarlega flókið. Það er mikið réttlætismál að einfalda það svo fólk skilji betur réttindi sín. Svo ber líka að hafa í huga að ef maður nýtur ekki ákveðinna réttinda í almannatryggingakerfinu missir maður líka önnur réttindi sem varðar félagslega aðstoð og slíkt. Þetta er því mjög margslungið.

Hér er verið að greina á milli. Hér er verið að gera kerfisbreytingu án þess að gera neitt við fjárhæðirnar. Það koma aðeins meiri peningar inn í það af því að króna á móti krónu skerðingin fer út, en það er sannarlega hægt að gera slíkar breytingar án þess að hækka upphæðirnar. En í ljósi þess að þessi ríkisstjórn hefur skilið lífeyrisþega eftir, hefur ekki sinnt almannatryggingakerfinu eins og skyldi, finnst mér einkennilegt að hún leyfi sér að koma loksins með þessa breytingu sem er nánast sambærileg við tillögur sem lagðar voru fram fyrir tæpum fjórum árum, og vera ekki búin að útvega fjármuni til þess að bæta eitthvað í. En breytingarnar er hægt að gera í tvennu lagi.

Spurningin er: Er það forsvaranlegt gagnvart öllum þeim tugum þúsunda sem reiða sig á framfærslu úr þessu kerfi og hafa ekki fengið sambærilegar hækkanir á við aðra samfélagsmeðlimi?