145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef maður skoðar kostnaðargreininguna eins og ég skildi hana í frumvarpinu er ekki verið að hreyfa mikið við upphæðum þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs. Það er auðvitað alveg rétt. En þetta varðar einnig breyttan lífeyristökualdur í frumvarpinu. Þetta er ekki mikil gagnrýni á frumvarpið af minni hálfu, þetta er miklu frekar vangavelta um það hvernig við eigum að nálgast viðfangsefnið. Ef við erum alltaf að blanda saman annars vegar sanngirnissjónarmiðum um hvaða upphæðir séu sanngjarnar og hverjar ekki, og hins vegar því hvernig hægt sé að einfalda kerfið, hef ég áhyggjur af því að það sem allir ættu í raun að vera sammála um blandist að óþörfu saman við eitthvað sem ágreiningur er um þegar markmiðið er í raun einföldun kerfisins. Hins vegar þegar við ræðum upphæðirnar og sanngirnisspurningarnar er þar eðlilega miklu meiri og pólitískari ágreiningur.

En mér finnst í raun gott við þetta frumvarp að það virðist mestmegnis stefna að einföldun. Eins og ég sagði áðan varðar það alltaf upphæðina, það hefur alltaf áhrif á upphæðina þannig að þetta blandast alltaf eitthvað saman. Við ættum auðvitað að reyna að hafa þessa þætti sem minnst saman, þ.e. ef markmiðið er augljóslega að einfalda bótakerfið.

Þá velti ég fyrir mér hvernig hv. þingmaður mundi sjálf fara að þessu, fyrir utan það væntanlega að gera þetta hraðar miðað við gagnrýni hv. þingmanns. Ef hv. þingmaður væri velferðarráðherra, mundi hún þá ekki leggja fram mismunandi frumvörp sem reyndu að aðskilja þessa þætti eftir bestu getu? Væru hér þá kannski tvö frumvörp í stað eins? Ég velti fyrir mér verklaginu vegna þess að mér er annt um að einfalda kerfið hreinlega til þess að geta betur svarað þeim spurningum sem ég fæ þegar ég geng um bæinn. Ég á erfitt með að svara þeim og segi það hreint út og fæ þakkir fyrir þá játningu vegna þess að allir aðrir eiga við sama vanda að stríða. Mér sýnist það vera stærsti vandinn.