145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í febrúar 2013 lagði velferðarráðherra Samfylkingarinnar fram frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar. Þau frumvörp sem hafa verið að mjatlast hér inn á þessu kjörtímabili eru niðurbrot á því frumvarpi. Smávægilegar breytingar og fjöldi nefnda hafa ekki náð neinum sérstökum árangri og litlum framförum. þannig að ég væri ekki í neinum vandræðum með það sem velferðarráðherra að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það þarf að gera kerfisbreytingu. Það hefðum við getað gert fyrir þremur árum. Hins vegar eru almannatryggingar grundvöllurinn að tekjujöfnunarkerfinu hér á landi. Við erum annars vegar með skattkerfið og hins vegar með almannatryggingakerfið. Þessi tvö kerfi saman mynda kerfi sem jafna tekjur til þess að tryggja framfærslu allra Íslendinga.

Eftir þær deilur sem hér hafa staðið yfir bendi ég á að þegar verið er að leggja fram svo veigamikið frumvarp finnst mér það makalaust að ekki sé samtímis verið að svara kallinu um hækkun á almannatryggingum. Það var punkturinn í mínu máli, en það er líka það sem þessi ríkisstjórn þarf að horfast í augu við gagnvart kjósendum nái þetta frumvarp fram að ganga. Og eins og ég kom (Forseti hringir.) að í máli mínu er mjög margt sem mér hugnast í frumvarpinu, en það er margt sem við þurfum að ræða (Forseti hringir.) sem þarna er. Svo er það skandall að ekki sé verið að hækka greiðslurnar.