145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[13:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að taka aðeins til máls um breytingu á lögum um almannatryggingar. Það hefur verið beðið heillengi eftir því að fá fram einhvers konar kjarabætur fyrir þann hóp fólks sem fyllir flokk eldri borgara. Það er minnisstætt þegar við stóðum hér við gerð fjárlaga og þess var krafist að fá kjör þeirra bætt, sem var ekki hægt samkvæmt því sem var sagt og tillögur okkar í minni hlutanum á þingi voru felldar. Það er ekki svo að frumvarpið sé með öllu ómögulegt, skárra væri það nú. Það eru einhver atriði sem eru ágæt og við þingmenn höfum ekki séð aðrar umsagnir en frá Landssambandi eldri borgara þar sem tekið er jákvætt í að skerðingin króna á móti krónu verði felld niður og bótaflokkar sameinaðir.

Eins og komið var inn á áðan varðandi 18. gr. fór hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir ágætlega yfir það í gær. Hún snýr að því að gera tilraunaverkefni, eða koma því á við eitt eða fleiri hjúkrunarheimili, um fyrirkomulag á greiðsluþátttöku íbúa sem þar dvelja. Þar sýnist mér eiga að koma að allir þeir sem máli skipta. Það á að tryggja öllum lágmarksgreiðslur, þ.e. þeir eiga að fá í kringum 58 þús. kr. í ráðstöfunarfé. Á móti kemur að þeir sem standa ágætlega fjárhagslega þurfa að borga meira samkvæmt þessu. Það var ábending um að íbúar á hjúkrunarheimilum þurfa, ef breytingin nær fram að ganga, að borga sjálfir fyrir almenna framfærslu, þ.e. mat, þrif, þvott, tómstundastarf og húsaleigu, eins og hér er tekið fram. Þá þarf að velta fyrir sér að þeir sem lakast standa og eru þarna undir og fá lágmarksgreiðslu upp á 58 þús. kr. eiga hugsanlega ekki mikið afgangs. Ég held að það væri afar gott að þetta væri greint mjög vel af hálfu nefndarinnar.

Það hefur komið mikil gagnrýni á þetta frumvarp þótt margir telji að hagur þeirra sem verst standa, hafa hvað lægstu framfærsluna, batni við þetta frumvarp. En það hefur verið staðfest hér að svo er ekki heldur snýst þetta meira um þá sem eru með lífeyrissjóð. Þeir eru verst staddir sem fá einungis lífeyri frá almannatryggingum, þ.e. eru bara á strípuðum lífeyri. Hæstv. ráðherra sagði í einhverri ræðunni að hagur þeirra yrði bættur í framtíðinni. Hagur þeirra sem hafa lífeyrissjóð batnar að einhverju leyti, en Tryggingastofnunarlífeyririnn hins vegar skerðist meira og aðrar tekjur skerða líka lífeyrinn.

Lífeyrissjóðurinn er eign okkar sem borgum inn í hann og því finnst manni hljóma undarlega að þegar fólk er búið að safna sér upp lífeyri, borga af atvinnutekjum sínum og fresta einungis skattgreiðslu skuli þetta vera eitthvað sem skerði, þ.e. hér er í raun lagt til að Tryggingastofnun verði aukaaðili máls en lífeyrissjóðirnir aðalatriðið í staðinn fyrir að grunnkerfið á að vera byggt á Tryggingastofnun en ekki öfugt. Þannig upplifi ég alla vega þetta frumvarp þótt ég vilji taka fram að ég er ekki búin að lúslesa það, en ég er samt búin að renna í gegnum það. Þetta er ekki einfalt mál.

Lífeyririnn í nágrannalöndunum er að mér skilst töluvert hærri. Eins er það þannig að tekjutengingar eru ekki eins þekktar og hjá okkur. Hér er talað um að hækka lífeyrisaldurinn úr 67 ára í 70 ára. Mörgum þykir það gott á meðan aðrir finna því allt til foráttu. Hann er lægri t.d. í Finnlandi, þar er hann á bilinu 63–65 ár, annars staðar á Norðurlöndum er hann alveg niður í 60 ár. Við vinnum samt miklu meira heilt yfir en nágrannar okkar á Norðurlöndum. Það þarf því að huga að mörgu í þessu. Mér hefur ekki fundist þetta frumvarp ná utan um það og heldur ekki þeim sem ég hef heyrt tala, sem eru t.d. í velferðarnefnd.

Greiðslurnar eru líka lægri í nágrannalöndunum en hjá okkur, þrátt fyrir að við séum með ljómandi góðan hagvöxt. Við höfum heyrt ríkisstjórnina guma svolítið af því að það séu til töluverðir peningar en þeir eiga allir að fara í að greiða niður skuldir. Það er með þetta eins og lægstu launin, af því að lægstu launin fyrir vinnu eru mjög lág, að það er einhvern veginn aldrei tími, það er aldrei rétti tíminn til að hækka. Lífeyrir fyrir aldraða sem búa einir er rétt rúmlega 212.000 kr. og það sér það hver heilvita maður að það er algjörlega óásættanlegt. Eldri borgarar hafa gert sömu kröfu og lagt hefur verið af stað með að þeirra lífeyrir verði að lágmarki 300.000 kr., eins og krafan var um lægstu laun.

Eftir allt ferlið sem þetta mál er búið að vera í, þ.e. samtal í kringum Pétursnefndina í einhver ár, er niðurstaðan sú að ekki á að hækka grunnlífeyrinn. Ég hefði persónulega viljað setja meiri fjármuni í að hækka grunnlífeyri þeirra sem ekkert annað hafa. Ég trúi því að hæstv. ráðherra, eins og fleiri, fái símtöl frá fólki sem ekki hefur annað til ráðstöfunar og hugsanlega stuðning frá sveitarfélaginu sínu, á jafnvel ekki fyrir nauðþurftum um hver mánaðamót. Það er þetta fólk sem við þurfum að einblína á, finnst mér, áður en við förum að hugsa um fólkið sem hefur lífeyrissjóði eða fólkið sem getur verið að vinna lengur. Þetta er eitt af því sem ég hef trú á að nefndin taki vel til meðferðar.

Frítekjumarkið er einnig mjög lágt. Þetta er eins og með fatlaða einstaklinga, eins og með eldri borgara, að vinnumarkaðurinn verður þá líka að vera tilbúinn til þess að hleypa fólki áfram og jafnvel bjóða því, ef það kýs svo, hlutastörf eða eitthvað slíkt. En vinnumarkaðurinn hefur alls ekki verið þannig stemmdur, það verður að segjast alveg eins og er. Það er líka mikilvægt að það sé sagt að hér er ekkert rætt um málefni öryrkja heldur eingöngu eldri borgara. Tekið var út ákvæði um starfsgetumat, þó svo að hæstv. ráðherra hafi upplýst að áfram sé unnið að því og útfærslu á því, en vinnumarkaðurinn hefur ekki verið móttækilegur fyrir því að bjóða fólki vinnu sem er kannski með 30% starfsgetu eða eitthvað slíkt, það getur jafnvel rokkað. Auðvitað veit maður að það er ekki alltaf einfalt mál að vera sjúklingur og kannski dagamunur á fólki og það getur þar af leiðandi ekki alltaf verið stabílt í vinnu. Svo eru aðrir sem hafa ákveðna starfsgetu og eru alveg stabílir í vinnu. Það á bæði við um eldri borgara og öryrkja, því að svo verða öryrkjar eldri borgarar. Það er ekkert öðruvísi með það.

Þegar við skoðum þá rýni sem Félag eldri borgara hefur sent frá sér og svo bókunina sem þau lögðu fram í nefndinni þá fagna þau því sem ég byrjaði á að tala um, þ.e. að sameina grunnlífeyri, tekjutryggingu og framfærsluuppbótina í einn flokk ellilífeyris. Þau hins vegar hvetja til þess að með batnandi efnahags landsins verði þetta skerðingarákvæði vegna lífeyrisgreiðslnanna lækkað í áföngum á næstu árum. Það er ekki gert ráð fyrir því hér. Þau taka undir hækkun á lífeyristökualdri. Ég get í sjálfu sér alveg tekið undir það. Það er stundum sagt að sextugt sé hið nýja fimmtuga, sem er auðvitað hið besta mál. Svo taka þau undir að starfsaldur og lífeyristaka verði sveigjanlegri þannig að hægt verði að taka 50% lífeyri og stunda 50% vinnu.

Þau segja, eins og ég sagði áðan, að hér sé fyrst og fremst stutt við þá sem eru með lífeyri, þ.e. þessi skerðing, 45% skerðingarhlutfall, á allar tekjur. Sýnt er í töflu í frumvarpinu hverjir koma betur út en aðrir. Það verður að segjast eins og er að það er sláandi hversu lágar þessar fjárhæðir eru. Ef einstaklingur er með 150 þús. kr. í tekjur og býr ekki einn er hann strax farinn að skerðast um 5 þús. kr. á mánuði, það er mikið þegar maður hefur ekki meira. Ef hann býr einn skerðist hann um tæplega 15 þús. kr. Það munar um minna, ég tala nú ekki um fyrir þá sem jafnvel þurfa fyrir utan þetta hefðbundna að kaupa lyf og annað slíkt.

Þau vekja líka athygli á því að þetta frítekjumark sé í rauninni þvert á álit verkefnisstjórnarinnar um endurskoðun almannatrygginga sem skilaði af sér tillögum 2009. Þar er ekki lagt til afnám frítekjumarka heldur er lagt til að framtíðarstefnan verði sú að frítekjumörk verði hækkuð umtalsvert. Markmiðið hafi verið og sé að auka sanngirni í almannatryggingakerfinu og þeim markmiðum sé best náð með því að draga úr skerðingum. Þetta ákvæði fær falleinkunn hjá þeim sem málið varðar. Ég veit að það er sjaldan svo að við fáum allt það sem við óskum eftir, hver svo sem við erum og á hvaða tíma, en það er ekkert launungarmál að hér var gengið nærri kjörum þessa hóps eftir hrun og þannig hefur það í rauninni alltaf verið, þetta hafa alltaf verið allt of lágar tekjur. Þetta fólk hefur skilað sinni vinnu í gegnum tíðina og þess vegna finnst manni að það eigi að gera betur þegar árar betur. Ég hefði viljað sjá ráðherrann fara inn í þetta með grunnlífeyrinn.

Ég tek undið þau sjónarmið hjá Félagi eldri borgara að lífeyrissjóðurinn verði svo viðbót.

Samkvæmt þessum frumvarpsdrögum fá allir lífeyrisþegar sem eru undir þessum lágmarksviðmiðum, þ.e. undir 100 þús. kr., örlítið hærri greiðslur. En þeir sem hafa tekjur yfir 400 þús. munu lækka og það skýrist af afnámi þeirrar reglu um að lífeyrissjóðstekjur skerði ekki lífeyri. Í þessari umsögn kemur fram að 4.200 manns muni fá lækkun og fái engan lífeyri frá Tryggingastofnun ef frumvarpið nái fram að ganga. (Gripið fram í.) — Ráðherra kallar fram í. Ég dreg ekkert í efa að þeir sem hafa ágætistekjur þurfi ekki endilega á lífeyri að halda, en þetta frumvarp gengur fyrst og fremst út á það fólk, þ.e. þá sem hafa engar aðrar tekjur, en ekki þá sem verst standa.