145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[13:46]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum mjög mikilvægt þingmál. Ekki aðeins að það sé mikið að vöxtum með greinargerð heldur yrði það afar mikilvægt þegar það kæmi til framkvæmda fyrir lífskjör mjög margra einstaklinga. Fyrsta atriðið sem ég vil leggja áherslu á er að okkur beri að skoða þetta mál, frumvarp til laga um almannatryggingar, í samhengi við það sem kemur til með að gerast innan lífeyrissjóðakerfisins vegna þess að á vinnsluborði aðila vinnumarkaðar og ríkisstjórnar eru einnig frumvörp sem lúta að lífeyrissjóðunum í landinu. Ég tel að þetta megi ekki skilja að. Ég tek undir orð Hörpu Njáls í ítarlegri grein sem hún birtir í Morgunblaðinu í dag þar sem hún vekur athygli á þessu. Harpa Njáls er sem kunnugt er sérfræðingur í stefnumótun á sviði velferðarmála. Þetta er fyrsta atriðið.

Annað atriðið er að þótt þetta mál hafi verið lengi í smíðum, og ég efast ekki um að menn hafi reynt að vanda þar mjög til verka og leita eftir víðtæku samráði, er það engu að síður svo að nokkrir aðilar, stjórnarandstöðuflokkarnir og Öryrkjabandalagið, eiga ekki aðild að þessu frumvarpi eða sýna ekki stuðning við það. Þetta er annar þátturinn sem ég vildi vekja athygli á.

Það sem ég vil staðnæmast við eru tengslin á milli almannatrygginganna og þessa frumvarps annars vegar og lífeyrissjóðanna hins vegar. Það sem verið er að gera hér er að verið er að færa aldursmörkin til töku ellilífeyris úr 67 árum í 70 ár. Það verður hægt að sönnu að taka ellilífeyri fyrr frá 65 ára aldri en þá með skerðingum. Ég segi: Það þarf að vera samhengi á milli aldursmarkanna í almenna lífeyriskerfinu og ellilífeyristökualdurs hjá lífeyrissjóðunum. Hjá almennu lífeyrissjóðunum eru þessi mörk 67 ár. Óskertur lífeyrir úr lífeyrissjóðunum hjá hinu opinbera, A-deild LSR, er við 65 ára aldur. Það er verið að tala um það núna í samkomulagi aðila á vinnumarkaði að færa þessi mörk upp, færa viðmiðunarmörkin úr 65 árum í 67 og samkvæmt þessu eins og ég skil þetta þá er takmarkið sett á 70 árin vegna þess að það þarf að vera samfella, ég á rétt á óskertum lífeyri frá almannatryggingum á sama tíma og réttindum lýkur innan lífeyrissjóðakerfisins. Þannig að við sjáum hvert vegvísirinn bendir. Það er verið að tala um að færa aldursmörkin alls staðar upp í 70 ár.

Hvað þýðir þetta? Breytir þetta einhverju um það hvenær fólk hjá hinu opinbera t.d. getur farið á lífeyri? Nei. Hjá hinu opinbera hafa menn verið í svokallaðri A-deild lífeyrissjóða frá ársbyrjun 1997 þegar samið var um nýja skipan lífeyrismála á almennum markaði og hjá hinu opinbera. Þá var búin til regla sem er þess eðlis að reiknipunkturinn, núllpunkturinn, er stilltur á 65 ár. Ákveði maður að fara fyrr á lífeyri fyrir 65 ára aldurinn þá skerðist lífeyririnn um 0,5% fyrir hvern mánuð, skerðist fyrir hvern einasta mánuð. Hvað þýðir það fyrir einstakling sem fær 300 þús. kr. í lífeyri úr lífeyrissjóði? Það eru 1.500 kr. á mánuði. Einstaklingur sem færi á lífeyri frá sextugu lækkar lífeyri sinn um 90 þús. kr. á hverjum mánuði, úr 300 þús. kr. lækkar hann niður í 210 þús. kr. Ef hann frestar því hins vegar að taka lífeyri fram yfir 65 ára aldurinn hækkar hann, þá eykur hann greiðslur sínar úr lífeyrissjóðnum um 0,75%. Hvað þýðir það í krónum talið fyrir einstaklinginn með 300 þús. kr.? Það þýðir 2.250 kr. á mánuði, á hverjum einasta mánuði sem hann fær aukinn pening í sinn hlut.

Nú erum við að fá tillögur þess efni að eigi að færa þessa reiknireglu til. Hvað þýðir það í krónum talið? Það þýðir skerðingu, þessa miklu skerðingu. Þess vegna segi ég að þetta frumvarp verður að skoðast í samhengi við samningaviðræður á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera. Þar er núna verið að pukrast með einhverja samninga sem verða að koma fram í dagsljósið. Við þurfum að ræða þetta allt saman í samhengi.

Mér er fullkunnugt um það að opinberir starfsmenn vilja fá tryggingu á móti í launum, launaskriðstryggingu. Hún á að vera sjálfkrafa. Þegar ég kom inn á vinnumarkað í kringum 1980 þá var þessi launaskriðstrygging fólgin í fyrirkomulagi sem gerði ráð fyrir sérkjarasamningum þar sem ríkið og líka sveitarfélögin breyttu launum hjá starfsmönnum sínum eftir atvikum í samræmi við launaskrið á markaði í sérkjarasamningum. Nú ætla menn að búa til sjálfkrafa vélræna tengingu þarna á milli. Ég hef miklar efasemdir um það. Þetta sama var reynt á 9. áratugnum. Þá átti að selja réttindi, aftengja réttindi opinberra starfsmanna, draga úr þeim á móti launahækkunum. Á árinu 1990, hygg ég það hafi verið, tókst okkur að afstýra þessu. Sem betur fer. Þá var krafan alltaf sú að lækka, að jafna kjörin, lífeyriskjörin, niður á við. Það var alltaf krafan. Okkur tókst að standa gegn þessu og bæta lífeyriskjörin sem varð til þess að lífeyriskjör á almennum markaði voru hækkuð líka og bætt. Þetta var niðurstaðan. Núna standa greiðslur í lífeyrissjóðina í 15,5%, svo kemur séreignarsparnaðurinn þar ofan á. Þetta eru miklir peningar, mjög miklir peningar. Maður er einn dag í viku að vinna fyrir lífeyrissjóðnum.

Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að taka allt lífeyriskerfið til uppskurðar. (Gripið fram í: Hvernig?) Ég hef sett fram tillögur um það að við eigum að endurskoða sjóðsmyndunina og að hvaða marki við eigum að vera inn í gegnumstreymiskerfinu sem ég held við eigum að fara aftur inn í í auknum mæli. Ég hefði viljað og talaði fyrir því á síðasta kjörtímabili að við tækjum hluta úr auðlindasjóði líkt og Norðmennirnir gera og settum hann í almannatryggingakerfið. Þar væri kominn stabíll tekjupóstur til þess.

Þetta segi ég án þess að ég sé með einhverjar miklar fordæmingar á þessu frumvarpi, ég vil ekki gera það einfaldlega vegna þess að ég er ekki búinn að skoða málið í þaula. Ég er einvörðungu að benda á að við þurfum að fara varlega og við þurfum að fá miklu meiri umræðu, líka hjá verkalýðshreyfingunni og í samfélaginu almennt um þetta samhengi hlutanna. Það sem er svolítið ógnvænlegt við alla þessa samninga er að menn eru að semja á þann veg að þeir hafa allt tryggt undir eigin fótum en semja síðan um rýrari kjör inn í framtíðina, telja sig vera að tryggja framtíð fólks með því að hækka við það launin og búa til vélrænar skrúfur í því samhengi sem ég leyfi mér hins vegar að segja að ég trúi ekki á. Ég hef ekki trú á því að þær haldi. Þannig að ég segi, þrátt fyrir þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í þetta og ég geri ekki lítið úr henni, alls ekki: Skoðum þetta samhengi allt saman. Stígum hægt til jarðar. Fáum fleiri greinar, fleiri sjónarmið, fleiri viðhorf, vegna þess að við erum að tala um lífeyrisréttindi okkar inn í framtíðina. Við erum búin að heyra núna, ekki bara núna í ár eða í fyrra eða árið þar áður eða á síðasta kjörtímabili og þar áður, gagnrýnisraddir frá öryrkjum og öldruðum um að kjör þeirra séu ekki nógu góð. Stígum þá engin skref sem gera þau verri. Reynum að gæta að því. Þá þurfum við að taka þessi mál áfram inn í gagnrýna umræðu.

Ég held t.d. að það hafi verið ágætt byrjunarskref eiginlega sem var stigið ekki í síðustu ríkisstjórn heldur þar áður, þegar byrjað var að greina á milli öryrkja, að setja ekki alla öryrkja undir sama hatt, þá sem hafa verið á vinnumarkaði og fá örorkubætur úr lífeyrissjóðum og hina sem aldrei hafa komið inn á vinnumarkaðinn og þurfa að treysta algerlega á almannalífeyriskerfið. Við byrjuðum að sundurgreina hópana. Sama gildir um aldraða. Þar þarf þessi aðgreining líka að fara fram. Það gengur ekkert að tala um öryrkja almennt og aldraða almennt. Við þurfum að skoða aðstæður hvers hóps um sig. Það er náttúrlega vandinn í almannatryggingakerfinu að annars vegar er kallað á skýrari línur, skýr lög, skýrar reglur, allt sé gagnsætt og hins vegar er kallað á réttlæti eins og ég er að gera sem þýðir þá oft flóknara regluverk vegna þess að verið er að mæta aðstæðum í lífi fólks og lífskjörum og kjörum almennt. Það er því vandlifað.

Hæstv. forseti. Það var þetta sem ég vildi fyrst og fremst leggja áherslu á. Það á að flýta sér hægt. Við skulum fá fram í dagsljósið samninga sem verið er að gera á vinnumarkaði, almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera, fáum þá bara fram, það á ekki að pukrast með þetta og það á ekki að dengja svona hlutum inn rétt fyrir lok þings, það má ekki gera það. Ég veit ekki hvað er að gerast uppi í fjármálaráðuneyti. Hvað er verið að ræða þar? Þau mál eru ekki á borði hæstv. félagsmálaráðherra, velferðarráðherra. Þau eru uppi í fjármálaráðuneyti.

Ég tek undir með þeim sem segja: Þessi mál verður að skoða heildstætt. Þau eru öll undir nákvæmlega sömu regnhlífinni. Þannig eigum við að taka á þeim.