145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu nú sem endranær. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að hann hefði farið inn á vinnumarkað árið 1980. Sá sem hér stendur er reyndar ekki fæddur í gær en fæddist hins vegar árið 1980, þannig að ég hef ekki nálægt því eins yfirgripsmikla þekkingu á þróun mála þessi seinustu 36 ár og hv. þingmaður. En ég hjó eftir því þegar hv. þingmaður fór að tala um muninn á 67 árum og 70 árunum, ef ég skildi hann rétt. Mig langar því gjarnan að heyra aðeins meira um það vegna þess að ef ég skil rétt, ég er engan veginn viss um að svo sé, þá er þarna mismunur sem gerir það að verkum að einhver réttindi fólks skerðast. Mig langar til að heyra meira um þetta og langar þá að varpa fram spurningunni í leiðinni hvort ekki þurfi einfaldlega að hafa einn samræmdan lögbundinn aldur sem nái þá yfir allt sviðið, ef ekki er hægt að hafa mismunandi aldursmörk án þess að einhver slík vandamál verði. Ég er ekki alveg sannfærður um að ég skilji vandamálið nákvæmlega. Hv. þingmaður var með tölur sem mér þótti áhugavert og skemmtilegt að heyra.

Sömuleiðis langar mig að heyra meira um hugmynd hv. þingmanns um að endurskoða sjóðsmyndunina í samhenginu við lífeyrissjóðakerfið, það er nefnilega þannig með auðlindasjóð, hugmyndin virkar svolítið eins og hugmyndin um það að kenna börnum eitthvað í grunnskóla, það virki sem lausn við öllu. Auðlindasjóður virkar svolítið þannig. Mig langar að heyra meira frá hv. þingmanni um hvernig hann sér fyrir sér fyrirkomulagið um auðlindasjóð til að standa undir því sem við erum að ræða hér, en sömuleiðis meira um þetta með 67 árin og 70 árin, muninn þar á, hvort sá munur valdi einhverjum skerðingum að mati hv. þingmanns (Forseti hringir.) og þá hvað hægt sé að gera til að fyrirbyggja það. Þarf þetta að vera kannski sameiginlega lögbundinn (Forseti hringir.) aldur yfir allt sviðið?