145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að eðli máls samkvæmt sé stefnt að því og hljóti að verða ákveðin samfella í aldursmörkum sem sett eru í almannatryggingakerfinu annars vegar og í lífeyrissjóðunum hins vegar. Þú hlýtur að eiga rétt á óskertum lífeyri í almannatryggingum þegar sleppir rétti þínum í lífeyrissjóðunum. Gagnrýni mín er sú að ekki megi ræða eitt úr samhengi við annað. Ég er að vara síðan við því að tilfærsla á aldursmörkum í opinberu sjóðunum, sem er núna núllstillt í 65 ára aldur, muni þýða ef þessi mörk eru færð upp á við verulega kjaraskerðingu fyrir lífeyrisþega sem þaðan koma. Ég nefndi 0,5% á mánuði hverjum sem þarna er um að tefla og 0,75%, þ.e. það er ávinningurinn upp á við eftir 65 ára aldur núna. Við erum að tala um, ekki bara um aldursmörk, við erum að tala um krónur í vasann eftir að þú ert kominn á lífeyri og umtalsverða peninga. Einstaklingur sem fer á lífeyri 60 ára gamall skerðir greiðslur til sín, ef hann er með 300 þús. kr., um 90 þús. kr. á hverjum mánuði með því að fara fyrr. Auðvitað ræðst það síðan af þessum aldursmörkum hvar þau eru sett.

Síðan hitt sem er auðlindasjóðurinn og að hverfa frá þeirri miklu sjóðsmyndun. Ég hef sett fram þau rök að ég telji að lífeyrissjóðirnir séu hreinlega of stórir fyrir okkar hagkerfi. Sérstaklega var þetta hættulegt þegar gjaldeyrishöftin voru og hafa verið, lokast inni og þú færð þetta gráðuga fjármagn á beit hér úti um allar koppagrundir og verður of ráðandi í íslensku efnahagslífi, tel ég vera. Ég tel líka vera of mikla áhættu fólgna í þessu. Þess vegna (Forseti hringir.) var tillaga mín sú að við ættum að gera eins og Norðmenn sem taka olíusjóðinn að einhverju leyti inn í almannatryggingarnar og láta auðlindagjald (Forseti hringir.) sem kæmi til að falla ríkissjóði í té renna inn í almannatryggingar til fjármögnunar þeirra að einhverju leyti.