145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé fyrir mér að í framtíðinni eigum við eftir að þurfa að breyta þessum aldursviðmiðum mjög reglulega vegna þess að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast, hún er að breytast í þá átt að stærri hluti verður eldri. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort þurfi þá ekki að samræma þennan aldur yfir allt sviðið, þ.e. milli lífeyrissjóðakerfisins og ellilífeyriskerfisins, nema þetta eigi alltaf að vera vandamál sem við þurfum sérstaklega að stemma af í hvert einasta sinn. Er ekki einhver aldur sem við hljótum öll að vera sammála um að eigi að vera einhvers staðar á einhverju svæði þannig að það sé ekki til mikils vansa að hækka þann aldur aðeins með tímanum. Því að eitt af því sem gerist með tímanum er að við verðum heilbrigðari, þvert á það sem flestir halda reyndar, og getum blessunarlega unnið lengur en áður. Það hefur auðvitað þessi áhrif og ekkert bendir til þess að sú þróun muni breytast í náinni framtíð.

Ég velti því fyrir mér framtíðarlausnum á þeim vanda. Varla ætlum við að fara að láta það stöðva okkur í því að breyta kerfinu í hvert einasta sinn sem það kemur upp á næstu áratugum. Ég velti þess vegna fyrir mér hvernig við getum leyst þann vanda varanlega. Ég get bara ímyndað mér tvennt. Það er annars vegar, og ég hef áhuga á skoðun hv. þingmanns á því, að samræma þennan aldur þannig að þetta sé alltaf rætt allt í einu sjálfkrafa, óhjákvæmilega yrði allt vitlaust væntanlega ef við styngjum upp á því að breyta þessu á einum stað. Hitt er síðan að breyta þessu einhvern veginn með þessar skerðingar, sem ég reyndar sé ekki fyrir mér í fljótu bragði hvernig væri hægt að gera án þess að storka tilgangi kerfisins til að byrja með, þ.e. þessar skerðingar ýmist eigi sér ekki stað eða séu hreinlega vægar eða hvað. Þetta eru nú ansi miklar skerðingar ef fólk tekur út of snemma eins og hv. þingmaður fer yfir. Ég sé ekki lausnina þar sjálfur. Þetta er bara það eina sem mér dettur í hug eða þá að hafa þetta samræmt yfir allt sviðið. Ef það skýrir spurningu mína eitthvað vona ég að hv. þingmaður geti farið lítillega inn á það. Eða, er þetta þannig að við þurfum í hvert einasta sinn að fara alltaf rosalega hægt? (Forseti hringir.) Þá sé ég fyrir mér að þróunin í þessum málaflokki yrði frekar hæg eftir því sem tíminn líður.