145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:12]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég held að þróunin eigi að vera hæg vegna þess að við erum að taka á svo ofboðslega stórum málum. Það sem hefur gerst með lífeyrisaldurinn er að við höfum núna þetta hlaup í honum. Við getum farið á lífeyri frá 60 ára aldri til sjötugs, ráðum því alveg. Svo er það tryggingafræðilegur útreikningur hve skerðingin er mikil, þetta er alveg sjálfbær hugsun að baki, fyrir hvern mánuð ef þú ferð á lífeyri fyrir 65 ára aldurinn og hver ávinningurinn er eftir, 0,5% fyrir, 0,75% eftir. Af hverju er munurinn á þessu? Það er vegna þess að þegar við eldumst þá dregur úr lífslíkum okkar. Það getur borgað sig fyrir lífeyrissjóðina að halda okkur lengur utan í vinnu. Það er hugsunin. Þetta er bara tryggingafræðilegur útreikningur. Það sem ég er að segja er að í rauninni erum við ekkert að ræða um það hvenær fólk fer á lífeyri vegna þess að sveigjan er þarna fyrir hendi, hún er þarna. Við getum alveg ráðið því.

Spurningin er hver reiknireglan á að vera um lífskjör okkar. Það er stóra spurningin. Um það erum við að fást. Þar er ég að segja að við eigum ekki að klára þessa umræðu án þess að fara mjög rækilega í hana. Nú er mér sagt að samtök opinberra starfsmanna séu að semja um breytingar á þessu kerfi og skilyrðið sé að fá einhverja launahækkunarskrúfu inn í samningana sem ég leyfi mér að hafa ákveðnar efasemdir um. Þetta var reynt undir lok 9. áratugarins og horfið frá því. Lífeyrisréttindin héldu. Við héldum áfram að bæta þau og laga til hagsbóta fyrir alla, líka almenna vinnumarkaðinn sem var hífður upp á við. Á þeim tíma lagðist Alþýðusambandið, því miður, gegn þessum réttindaávinningi opinberra starfsmanna, það var ágreiningur um það, (Forseti hringir.) en það varð til þess að þeirra félagar voru hífðir upp. Það er veruleikinn. Horfum á hann.