145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Ég fagna því að hv. þingmaður er fylgjandi auknum jöfnuði. Við erum þá á sama báti þar vegna þess að tillögur nefndarinnar eins og þær liggja fyrir og umræðan í nefndinni gekk mjög út á það að menn hefðu sem jöfnust tækifæri. Ég er ekki enn þá orðinn alveg klár á skýringunni á þessum hópi sem ég spurði um áðan þrátt fyrir orð hv. þingmanns, en ég tek það þannig að hann telji að samkvæmt almannarómi sé einhver hópur innan mengisins öryrkjar sem sé raunverulega ekki öryrkjar heldur svona af eigin ósk og/eða eigin frumkvæði. Mig langar að fá þetta skýrt hjá þingmanninum vegna þess að ef svo er þá er ég gjörsamlega ósammála honum. Ég tel að fólk sem nú nýtur þessara bóta sem mörgum þykja naumt skornar, þar á meðal mér, hafi gengið í gegnum mat, örorkumat, þar sem sérfræðingar hafa kveðið upp úr með að það hafi ekki starfsgetu. Þess vegna langar mig enn, burt séð frá þessum óskilgreinda hópi sem hv. þingmaður virðist hafa gripið á lofti í almannarómi, að spyrja hann um það viðhorf sem ég hafði hér áðan uppi, hvort hann telji að starfsgetumat eins og það er sett fram í tillögu nefndarinnar um endurskoðun almannatrygginga sé líklegra til þess að koma þessu fólki til aðstoðar í því efni að verða virkari þátttakendur í þjóðfélaginu. Þá er ég ekki með því að tala um að spara ríkinu fé heldur að gera þá einstaklinga sem fært er að endurhæfa að virkari (Forseti hringir.) þátttakendum í þjóðfélaginu þannig að þeir eignist fyllra og innihaldsríkara líf.