145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað því endanlega núna hver skoðun mín er á starfsgetumatinu. Í fljótu bragði hefur mér litist vel á það. En gagnrýnina sem ég heyrt á það hef ég ekki alveg getað sett í samhengi við þær hugmyndir sem ég hef heyrt um starfsgetumatið hingað til. Eins og er er ég hlynntur því og vona að það hafi þau áhrif sem hv. þingmaður nefndi. Ég get eiginlega ekki svarað þessari spurningu betur á þessum tímapunkti, ekki fyrr en ég hef haft tækifæri til að kynna mér betur muninn á starfsgetumati og núverandi fyrirkomulagi. En miðað við allt sem ég þekki um málið þá er það skref fram á við.

Hvað varðar þennan hóp þá held ég, virðulegi forseti, að hv. þingmaður reyni að vera hneykslaðri á þessum ummælum en tilefni er til. Það er þannig í samfélagi sem telur hundruð þúsundir manna og við erum búin að búa til kerfi sem varðar tugþúsundir manna, þá er þessi umræða auðvitað alltaf uppi og hefur átt sér stað hér í þingsal og ekki síst frá hv. 2. þm. Reykv. s. á sínum tíma, sem er framsóknarmaður, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, um að það sé til fólk sem misnoti hin ýmsu kerfi. Auðvitað er það alltaf til staðar. Hvort það er 0,1% eða 1% eða 3% eða hvað veit ég ekki. Það eru aðrir sem vita það betur, ég hef a.m.k. ekki heyrt það háar tölur á þeim nefndarfundum sem ég hef setið um þau efni. Auðvitað er sá hópur til staðar. Hann er væntanlega mjög lítill, eða ég held alla vega að hann sé mjög lítill.

En alltaf þegar við ræðum þessi mál þá verður maður stanslaust var við ótta við að gera ekki þetta eða hitt vegna þess að þá fái einhver hópur sem aðrir kalla aumingja meira en hann á skilið. Það sem ég er að segja, því að ég virðist vera meiri jafnaðarmaður en hv. þingmaður, er að ef ég skil gagnrýnendur rétt þá finnst mér þetta ásættanlegur fórnarkostnaður, vissulega upp að einhverju marki, til þess að tryggja að þeir sem þó þurfa á bótum að halda fái þær. Mér finnst það langmikilvægast, miklu mikilvægara en að við séum stanslaust að velta því fyrir okkur hvort þessi eða hinn sé að svindla á einhverju kerfi. Það getur vel gerst í öllum kerfum. Það er enginn áfellisdómur (Forseti hringir.) um neinn hóp. Það er bara eðli mannlegs samfélags. Það er ég sem stend hér og segi: Við eigum að hætta að pæla í því hvort við köllum þetta fólk aumingja eða ekki. Það er ekki (Forseti hringir.) aðalatriðið. Aðalatriðið er að fólk fái það sem það á skilið.