145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:03]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að tjá mig um að þetta frumvarp skuli vera komið fram, sem er kannski gleðilegt, ég veit það ekki. Það er afrakstur mikillar vinnu nefndar sem fór af stað í upphafi kjörtímabilsins til að reyna að breyta almannatryggingum. Ég held að það sé náttúrlega alveg ljóst að gera þarf eitthvað í þeim málum og gera það vel. Ég treysti alveg því fólki sem er í nefndinni, ég var skipaður í hana á sínum tíma sem aðalmaður en varamaðurinn minn vildi endilega taka þátt í henni þannig að ég tók ekki þátt í starfinu að fullu. Ég er búinn að glugga aðeins í frumvarpið og verð að segja eins og er að ég á eftir að lesa það mun betur.

Það var einhver sem sagði í gær að það væru tveir menn á Íslandi sem kynnu eitthvað á almannatryggingakerfið, ég er alveg pottþétt ekki annar þeirra svo það sé nú sagt. En ég velti því fyrir mér hvort þetta sé gott og það eru náttúrlega ýmsar gagnrýnisraddir úti í samfélaginu og menn benda á að það sé ekki gott, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi áðan, að þeir sem hafa minnst nú þegar fái enga hækkun. Það tel ég náttúrlega mjög alvarlegt.

Við höfum vitað það í mörg ár að ástandið er slæmt hjá vissum hópum í samfélaginu, hjá eldri borgurum og ekki síst hjá öryrkjum, sem nánast búa við hungurmörk og hafa verið að berjast við það í mörg ár að fá kjör sín bætt. Það er kannski lykilatriðið, við þurfum að bæta þau.

Mig langar til þess að vitna í einn mann sem heitir Björgvin Guðmundsson, hann er viðskiptafræðingur og fyrrverandi borgarfulltrúi og sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu. Hann hefur farið fyrir kjaranefnd eldri borgara í Reykjavík, verið formaður hennar, og segir á heimasíðu sinni hvernig hann hefur haft samband og verið í samvinnu við stjórnmálaflokka. Hann segir í dag, með leyfi forseta:

„Margir virðast telja að hagur þeirra aldraðra og öryrkja sem verst eru staddir muni batna ef frumvarp um almannatryggingar verði samþykkt. En það er misskilningur. Stjórnmálamenn og sérstaklega fulltrúar ríkisstjórnarinnar eru búnir að klifa á því í langan tíma, eitt til tvö ár, að hagur þeirra verst stöddu muni batna. En þetta er ekki rétt. Þetta er blekking. Þessi áróður hefur smogið alls staðar inn þannig að ólíklegustu menn eru farnir að trúa þessu.“

Síðan spyr hann:

„Hverjir eru verst staddir meðal lífeyrisþega? Það eru þeir sem einungis hafa lífeyri frá almannatryggingum og ekki aðrar tekjur, eru á strípuðum lífeyri eins og sagt er. Er verið að bæta hag þeirra? Nei, ekki um eina krónu. Það var staðfest á Alþingi í gærkvöldi. Eygló ráðherra sagði að hagur þeirra yrði bættur í framtíðinni. Það er mikil huggun í því eða hvað? En hverra hagur batnar þá? Jú, hagur þeirra sem hafa lífeyrissjóð batnar nokkuð. En þó er grunnlífeyrir felldur niður hjá eldri borgurum þó að eldri borgarar hafi alltaf lagt áherslu á að halda honum. En lífeyrir TR skerðist meira en áður vegna atvinnutekna. Hagur þeirra versnar sem sagt. Ég tel að afnema eigi skerðingar vegna lífeyrissjóða alveg. Við eigum þennan lífeyri og ríkið á ekkert með að skerða hann hvorki beint né óbeint. Mál er að linni.“

Ég held að þessi maður hafi miklu meira vit á þessu en nokkurn tímann ég. Ef þetta er rétt sem hann segir þá verður að skoða þetta mun betur og reyna að laga það. Nú veit ég það ekki. Ég sé að hæstv. ráðherra hristir hausinn og ég treysti á að hún skýri það út fyrir okkur hvers vegna hún gerir það. En ég tel að við eigum að fara vel yfir þetta, málið kemur til minnar nefndar, velferðarnefndar, og við munum örugglega skoða það vel. Ég vona að við getum skoðað þetta það vel að við getum sent frá okkur frumvarp, hvort sem það verður á þessu þingi eða hvert sem framhaldið verður, sem bætir hag allra og við getum boðið öllum öryrkjum og eldri borgurum mannsæmandi lífskjör. Það er algjört lykilatriði í mínum huga, hverju sem fram vindur, að við verðum að bjóða þessu fólki mannsæmandi lífskjör. Ég held að það sé líka það eina sem það er að biðja um. Við sem þjóð, svona rík þjóð, eigum að geta gert það. Annað er eiginlega skammarlegt. Og hvernig staðan er hjá mörgum af þessum hópum núna er í raun skammarlegt. Við eigum að sameinast um það öll sem eitt, þvert á alla flokka, að breyta þessu, standa saman að því að breyta þessu þannig að þessir hópar geti borið höfuðið hátt og labbað hér um götur sem fullgildir þegnar í samfélaginu. Það eru allt of margir sem eru utan kerfis eða lenda utan garðs og eiga verulega um sárt að binda.

Mín ósk er sú að við leysum þetta mál alveg eins og við leystum húsnæðisfrumvörpin í vor í fullri samvinnu og vöndum okkur við það og skilum frá okkur frumvarpi sem tryggir það að enginn, ekki ein einasta manneskja, lendi utan garðs.