145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:08]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa umræðu og tek undir það og er alveg sannfærð um að velferðarnefnd mun takast á við þetta verkefni jafn vel og hún gerði varðandi húsnæðismálin. Ég treysti engri annarri nefnd betur til þess að fást við þetta verkefni en einmitt velferðarnefnd sem hefur sýnt það aftur og aftur hverju við getum náð fram þegar við tökum höndum saman.

Þetta fyrirkomulag, þær breytingar sem hér eru lagðar til á almannatryggingum eldri borgara, snýst um einföldum, að við skiljum betur kerfið, að fólk viti hvaða rétt það á. Það er ekki þannig í dag. Það snýst um að auka sveigjanleikann í kerfinu þannig að fólk hafi sjálft meira um það að segja hvernig það trappar sig niður vegna aldurs eða aukinnar vanheilsu þegar það eldist. Á þeim grunni, þegar kerfisbreytingarnar eru komnar í gegn, þegar fólk veit hvaða rétt það á og skilur hann, munum við halda áfram að bæta í.

Þetta sýndi sig vel um síðustu áramót, ég held að aldrei áður hafi orðið jafn miklar prósentuhækkanir á bótum og einmitt þá, það sýndi sig hvað það hefði skipt miklu máli ef við hefðum verið búin að ganga frá þeim kerfisbreytingum þannig að fólk hefði áttað sig betur á því hvað við vorum í raun að setja mikla fjármuni inn í kerfið. Hér erum við að búa til nýjan ellilífeyri, ég get líka notað orðið grunnlífeyri því að hinn svokallaði grunnlífeyrir sem alltaf er verið að tala um heitir samkvæmt lögum um almannatryggingar ellilífeyrir. Hér erum við að búa til nýjan ellilífeyri. Það er rétt að lagt er til að hann skerðist með ákveðnum hætti. Það er tillaga þessarar nefndar og þeirrar nefndar sem starfaði þar á undan. Við erum hins vegar komin með nýtt ákvæði, þá nýjung að hægt sé að fá hálfan áunninn ellilífeyri og það skiptir engu máli hvað þú ert með miklar aðrar tekjur, það mun ekki skerða þann hluta. Það mætir að mínu mati að miklu leyti sjónarmiðum varðandi breytingar sem eru að verða vegna afnáms frítekjumarks atvinnutekna. Ég hef sagt það áður hér og ég hvet nefndina til þess að fara mjög vel yfir þetta ákvæði.

Við erum líka að setja inn ákvæði sem er nýjung, það hefur verið til staðar í lífeyrissjóðakerfinu en hefur ekki verið til staðar í almannatryggingakerfinu, að fólk geti farið fyrr á lífeyri, áður en „lögbundnum“ lífeyristökualdri er náð. Núna er það 67 ára. Ef frumvarpið verður að lögum verður það möguleiki fyrir fólk, ef það á nægileg réttindi, að byrja að taka eftirlaun eða fara á ellilífeyri frá 65 ára aldri. Það þýðir að vísu að hann verður ekki jafn mikill og hann hefði orðið ef fólk hefði farið seinna á lífeyri, en það getur líka frestað því og þar af leiðandi fengið aukin réttindi.

Ég efast heldur ekki um að nefndin mun fara vel yfir athugasemdirnar vegna frítekjumarks atvinnutekna og velta þeim fyrir sér upp á hvort hægt sé að hreyfa til skerðingarprósentuna sem nefndin lagði til og er nákvæmlega hér í frumvarpinu, var einnig í frumvarpi sem var lagt fram í lok síðasta kjörtímabils og líka fyrr á þessu kjörtímabili frá hendi þingflokks Samfylkingarinnar, og hún skoði samspilið við það að auka ef til vill eilítið flækjustigið með því að setja einhvers konar frítekjumark varðandi atvinnutekjur þannig að kostnaðurinn verði sá sami með því að stilla það af.

Það er líka mikilvægt að benda á að af þeim 33.000 eldri borgurum sem fá núna ellilífeyrisgreiðslur hjá almannatryggingum eru 23 einstaklingar ekki með neinar aðrar greiðslur, samkvæmt tölum sem ég fékk fyrir ekki löngu síðan. Allir umfram þessa 23 fá meira.

Ég vil líka segja hér að ef sú tillaga yrði samþykkt að það yrðu engar skerðingar á lífeyrissjóðstekjum, þótt hér séum við að taka skref í þá átt að bæta samspilið á milli almannatrygginga og lífeyrissjóðanna, sem sagt tveggja lykilkerfa, værum við fyrst og fremst að huga að þeim sem hafa mest, því að hér er lagt til að klippt sé á þegar fólk er komið með 450–500 þús. kr. í aðrar tekjur. Ég er ekki sammála því að við þurfum að bæta við stuðninginn þar. Ég vil mun frekar horfa til þess hvað við getum gert varðandi þessa 23 einstaklinga eða hvað við getum gert þegar við erum búin að ná kerfisbreytingunni í gegn, þegar við erum líka búin að bæta kerfi öryrkja og ná samtalinu við þá. Þá setjumst við líka yfir það hvað við getum gert, hvernig við sjáum fyrir okkur að breyta bótunum og hvernig hækkum við þær. Það er eitthvað sem við erum öll sammála um. Það eru allir sammála um mikilvægi þess. Síðustu tölur sem ég sá sýndu að það eru um 60.000 manns sem fá greiðslur með einum eða öðrum hætti í gegnum Tryggingastofnun og um helmingur eru eldri borgarar, 33.000 eldri borgarar og það skiptir verulega miklu máli að við hugum að því hvernig við getum búið til sem best kerfi. Þetta er tillaga eftir margra ára nefndarstarf þar sem helstu hagsmunasamtök komu að. Það er mikilvægt að hafa það í huga þó að menn hafi viljað ganga lengra að einhverju leyti og komi því á framfæri í sérálitum, að menn voru sammála um þær tillögur sem hér eru um breytingar, menn voru sammála um að þetta væru góðar tillögur og yrðu til hagsbóta fyrir einstaklingana sem fá greiðslurnar og fyrir samfélagið í heild sinni.

Ég vona að menn fari vel yfir, eins og við höfum gert í ráðuneytinu varðandi sérálitin sem voru bókuð þar sem menn voru að horfa til framtíðar, hvað viljum við gera þegar kerfisbreytingin er orðin að raunveruleika, en til þess að við getum komist þangað þá verðum við fyrst að klára þessa kerfisbreytingu, tryggja einföldunina, tryggja að við skiljum öll kerfið betur en við gerum í dag og auka sveigjanleikann. Síðan veit ég að við munum öll taka höndum saman um að halda áfram að bæta kjör lífeyrisþega.