145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

húsnæðismál.

849. mál
[15:22]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þau rök sem höfð hafa verið uppi um að breyta hlutverki Íbúðalánasjóðs eru m.a. þau að lítil umsvif séu hjá sjóðnum, að hann standi í raun ekki undir núverandi hlutverki samkvæmt löggjöf. Ég velti því fyrir mér sem ég kom að í ræðu minni áðan um almannatryggingar. Fyrir þessu þingi liggja mörg stór og knýjandi verkefni. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað liggi á með þessa breytingu. Er ekki í lagi að skoða þessi mál betur á nýju þingi að loknum kosningum?

Við fengum ágæta kynningu hjá hæstv. ráðherra fyrir allnokkru síðan á tillögum verkefnisstjórnar um húsnæðismál. Þar var upphaflega gert ráð fyrir því í þeim tillögum, ég ítreka að það er talsvert síðan, að hlutverki Íbúðalánasjóðs yrði breytt en að við mundum horfa á eitthvert nýtt, opinbert húsnæðisfélag og nýtt hlutverk þannig að við mundum ekki afhenda húsnæðislánamarkaðinn eingöngu til bankanna, sérstaklega á meðan fyrirkomulag bankanna hér á landi hefur ekki verið endurskoðað, sem ég tel raunar brýna þörf á. Ég held að ég eigi einhverja samleið með nokkrum hv. þingmönnum í flokki hæstv. ráðherra sem telja mjög mikilvægt að endurskoða bankakerfið, að við hugum til að mynda að stofnun samfélagsbanka. Það hefur ekki verið gert.

Við vitum allt um sjónarmið hv. þingmanna og hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins til þeirrar hugmyndar, sem er auðvitað samstarfsflokkur hæstv. ráðherra. Ég átta mig því ekki á því að við séum í raun að fara að leggja niður Íbúðalánasjóð í núverandi mynd og skilja hann eftir með afar takmarkað félagslegt hlutverk, og að ekki sé fyrirhugað að fylgja þeim hugmyndum sem voru um opinbert húsnæðisfélag sem mundi taka yfir hlutverk sjóðsins að einhverju leyti og að ekki sé þá búið að ráðast í einhverjar hugmyndir um samfélagslegt hlutverk banka.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Þetta eru breytingar, en er eitthvað sem (Forseti hringir.) ýtir á að þetta verði klárað?