145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

hlutdeild sveitarfélaga í svokölluðum bankaskatti.

[15:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér fannst sjálfsagt að hlýða eftir því sjónarmiði sveitarfélaganna á sínum tíma að það þyrfti eitthvað að koma á móti vegna þess tekjutaps sem leiddi af aðgerðum ríkisstjórnarinnar með skattafslættinum. Ég hef haldið því til haga í þessum ræðustól að aðrir hlutir komi á móti líka. En það breytir því ekki að ég studdi frumvarpið um þetta efni eins og það var lagt fyrir þingið. Ég held að það hafi komið fyrir þingið í þrígang. Enn hefur það ekki verið afgreitt. Það finnst mér mjög bagalegt. Ef ég veit rétt er meginástæðan fyrir því að málið hefur ekki fengist afgreidd sú að menn hafa í þinginu viljað hlusta eftir sjónarmiðum frá sveitarstjórnarstiginu. Þar hafa verið átök á milli þeirra sem leggja áherslu á að tekjurnar af þessu skili sér í sem líkustum hlutföllum og tekjutapið hefur orðið, eins og hv. þingmaður nefndi, og svo hinna sem segja að það eigi að skila þessum tekjum aftur út til sveitarfélaganna á grundvelli almennu reglnanna í jöfnunarsjóði.

Von okkar fólks í þingnefndinni sem hefur haft málið til meðferðar var sú að sveitarfélögin gætu leyst úr þessum ágreiningi innbyrðis, að hægt væri að ræða málið á þeim vettvangi og leiða fram einhverja niðurstöðu með samtali milli sveitarfélaganna. Það hefur því miður ekki orðið raunin. Á meðan hefur málið safnað ryki í þinginu. Það er áhyggjuefni, eins og hv. þingmaður nefnir, og mögulega þarf þingið á einhverjum tímapunkti einfaldlega að höggva á hnútinn.