145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

þjóðaröryggisráð og tölvuöryggi þingmanna.

[15:22]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég spyr þessarar spurningar vegna þess að ég hef á tilfinningunni að stjórnvöld taki þessari yfirlýsingu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar bara dálítið kæruleysislega. Ég geri það ekki. Mér finnst það vera alvarlegt mál ef upplýst er um það að hægt sé að brjótast inn í tölvu forsætisráðherra landsins. Ég geri þá kröfu til stjórnvalda að slíkar yfirlýsingar séu teknar alvarlega, að rannsókn fari fram. Þetta hlýtur að vera á dagskrá ríkisstjórnarfundarins á morgun, eða hvað? Að menn fari yfir það, ráðherrarnir skiptist á upplýsingum um það sín á milli hvort brotist hafi verið inn í tölvur hjá þeim, hvort þeim sé veitt eftirför í útlöndum o.s.frv. Það hlýtur að vera alvarlegt mál þegar upplýsist um svona hluti. Við hljótum að beina þeim upplýsingum í formlegan farveg þannig að það sé klárt og við vitum það, almenningur í landinu, hver það er sem hefur aðgang að upplýsingum sem varða þjóðaröryggismál, almannahagsmuni, og hvort farið sé með þessi mál þannig (Forseti hringir.) að fullt traust ríki, þannig að menn geti treyst því að þetta sé (Forseti hringir.) ekki bara skilið eftir á glámbekk og hver sem er komist inn í tölvur sem eru (Forseti hringir.) í umsjón ráðamanna þjóðarinnar.