145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

uppbygging á Bakka.

[15:24]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og hæstv. iðnaðarráðherra veit er komin upp óvænt og flókin staða varðandi uppbyggingu á Bakka við Húsavík. Heimamenn og við flestöll höfum haft miklar væntingar til þessarar uppbyggingar og menn eru eðlilega í nokkru uppnámi yfir þeirri stöðu sem upp er komin eftir bráðabirgðaúrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ég er ekki alveg viss um að Alþingi hafi séð fyrir þá túlkun laganna sem hefur leitt til þessarar grafalvarlegu stöðu. Ég held að ég geti sagt að flestum aðilum málsins sé umhugað um að leysa þetta mál með hætti sem er farsæll fyrir sem flesta. Ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra er mér sammála um það og veit að hún hefur hugsað alvarlega og til þrautar um þetta mál og til lausnar.

Því vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvernig hún og ríkisstjórnin ætli að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin eftir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem setur hluta línulagnar að iðnaðarsvæðinu í algjört uppnám. Ég minni auðvitað á að tíminn hleypur frá okkur vegna þess að á þessu svæði er vinnutíminn ekki tólf mánuðir á ári heldur kannski sex til sjö mánuðir.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hún og ríkisstjórnin bregðast við þessari grafalvarlegu stöðu?