145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

fjárveitingar til skáldahúsanna á Akureyri.

[15:35]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við erum ekki að tala um einhver tilfallandi söfn sem Akureyrarbær ákvað kannski að rigga upp fyrir tíu árum. Nonnahús er elsta höfundarsafn landsins. Það var sett á fót árið 1957. Gríðarlega vel sótt safn sem meira og minna hefur verið unnið í sjálfboðavinnu. Það var á fjárlögum um tíma. Það féll hins vegar af fjárlögum þegar safnliðirnir fóru, árið 2012 væntanlega, inn í ráðuneytin, sem mér fannst rétt skref. Því að mér finnst ekki að þingmenn eigi að vera að víla og díla með einhverjar milljónir hér og þar í sínu kjördæmi. En þá verðum við að treysta því að í ráðuneytunum sé farið faglega yfir hlutina. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að Davíðshús, Nonnahús og Sigurhæðir séu það mikilvæg söfn að mér finnst sérkennilegt ef ríkið kemur ekki að rekstri þeirra. Ég verð að segja það. Og þá vil ég bara fá það staðfest hér. Ef þetta eru söfn sem ríkið á ekki að koma að, þá hljóta að vera ansi mörg söfn sem ríkið ætti þá bara að draga sig út úr. Ég vil taka það (Forseti hringir.) fram að ég sé ekki eftir peningum sem fara í hin skáldahúsin. Þau eru mjög mikilvæg. Ég hef heimsótt þau öll og þau sinna góðu starfi.