145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

fjárveitingar til skáldahúsanna á Akureyri.

[15:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður má ekki misskilja orð mín þannig að ég sé að gera upp með einhverjum hætti á milli þessara safna eða þeirra rithöfunda sem söfnin eru kennd við eða með nokkrum hætti að gera lítið úr þeim söfnum sem sveitarfélögin koma á laggirnar. Það sem ég er að tala um er meginreglan sem við þurfum að velta fyrir okkur: Hvernig á að fara með það þegar sveitarfélag, Akureyrarbær eða einhver annar, skulum við segja, tæki þá ákvörðun á morgun að minnast skálds sem hefur búið í sveitarfélaginu með því að setja á laggirnar einhvers konar safnstofu? Hver á þá vinnureglan að vera þar undirliggjandi til að takast á við það? Eigum við að hafa hana þannig að slíkt sé ekki gert nema í samstarfi og samráði við ríkisvaldið og tryggt sé í upphafi að fjármunir komi þá úr ríkissjóði til þess safns? Eða hvernig mundum við sjá það fyrir okkur? Það skiptir svolitlu máli að átta sig á þessu. En ég sagði áðan og ítreka að hv. þingmaður hefur nokkuð til síns máls þegar hægt er að benda á það, en því miður er hægt að benda á fleiri svona dæmi þegar kemur að rekstri hins opinbera og ákvörðunum um hvað er stutt og hvað ekki, en það er auðvitað erfitt að rökstyðja hvers vegna ekki ætti að setja fjármuni (Forseti hringir.) til dæmis vegna Davíðs Stefánssonar eða síðan á hinn veginn vegna Halldórs Laxness o.s.frv. Þetta eru allt merkileg og mikilvæg skáld sem skipta miklu máli fyrir íslenska menningarsögu.