145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[15:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef lýst því yfir að ég tel að á meðan stjórnkerfi fiskveiða er ekki breytt sé það fyllilega verjanlegt að leyfa smábátum frjálsar veiðar á makríl. Það mundi vera mín óskastaða. Ef við færum síðan þá leið að breyta kerfinu eins og Viðreisn vill, eins og Samfylkingin vill, eins og Píratar vilja, og VG vill a.m.k. að hluta til, held ég að öðru máli gegndi. Þá væri sjálfsagt að sá floti fengi að bjóða í þá hlutdeild sem hann fær. Eftir aðstæðum mundi hann hugsanlega greiða minna en við leggjum til hér eða meira ef aðstæður á markaði eru með þeim hætti. Það er nú mín skoðun.

Að öðru leyti slá hjörtu okkar, mitt og hins vaska þingmanns frá Suðureyri við Súgandafjörð, í takt eins og svo oft áður. Þau gera það mjög nálægt hvort öðru varðandi sjávarútvegsmál. Það kann að vera blæbrigðamunur á öllu, en ég vil segja það algjörlega skýrt að ég tel að það sé mikilvægt að þessir flokkar stefni að því að mynda hér nýja ríkisstjórn eftir kosningar og að eitt af meginmarkmiðum þeirrar nýju umbótastjórnar verði að gjörbreyta stjórnkerfi fiskveiða með þeim hætti að stórútgerðin, sem í dag hefur einkarétt á því að nýta auðlindina, verði eins og allir aðrir að afla sér heimilda í gegnum markað. Ég er ekki að segja að það eigi að setja allar heimildirnar á markað, en smám saman á að fyrna þær og koma þeim með þeim hætti á markað. Það gengur ekki, eins og við höfum séð á þessu kjörtímabili, að ríkisstjórnin hefur fært ólígörkum sjávarútvegsins 20 milljarða á silfurfati. Við þurfum þá peninga til þess að bæta hlut aldraðra og öryrkja. Það verður gert af hinni nýju umbótastjórn.