145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að gera grein fyrir framhaldsnefndaráliti við 3. umr. um búvörulögin. Það er nefndarálit 2. minni hluta og sú sem hér stendur fer fyrir honum.

Ýmsar jákvæðar breytingar hafa orðið á málinu eftir 2. umr., m.a. vegna tillagna og ábendinga frá 2. minni hluta, Vinstri grænum, sem fagnar þeim breytingum sem lagðar hafa verið til á frumvarpinu. 2. minni hluti telur að rétt hafi verið að brugðist var við breytingartillögu hans um að búvörusamningar verði metnir samkvæmt aðferðafræði umhverfismats áætlana og lýsir ánægju sinni með að þetta mikilvæga skref í átt til fylgni við umhverfissjónarmið hafi verið tekið inn. Breytingartillaga 2. minni hluta þess efnis að heimilt verði að fella niður opinberar landbúnaðargreiðslur til þeirra sem brotið hafa lög um velferð dýra með því að gerast sekir um dýraníð var einnig tekin að hluta inn í frumvarpið. Enda þótt þar hafi verið komið til móts við það meginsjónarmið að dýraníð sé svo alvarlegt brot að réttmætt sé að fella niður opinbera styrki til þeirra sem gerst hafa brotlegir með þeim hætti og jafnframt mikilvægt til þess að hindra frekari brot var að mati 2. minni hluta ekki gengið nægilega langt til þess að tryggja að fullt gagn yrði af úrræðinu. Sökum þess mun 2. minni hluti leggja til breytingartillögu við breytingartillögu meiri hlutans á þskj. 1647, sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Breytingartillagan miðar að því að Matvælastofnun verði heimilt að fella niður allar opinberar stuðningsgreiðslur en ekki aðeins greiðslur vegna dýrs sem brot hefur beinst gegn. 2. minni hluti áréttar að heimild til að fella niður stuðningsgreiðslur verði beitt samhliða vörslusviptingu og hafi aðili þá haft tækifæri til að bæta ráð sitt. Samkvæmt 1. mgr. er Matvælastofnun heimilt að svipta umráðamann dýra vörslu þeirra hafi fyrirmælum stofnunarinnar ekki verið sinnt innan tiltekins frests. Þá áréttar 2. minni hluti að Matvælastofnun skal sem endranær fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga, til að mynda veita andmælarétt og fylgja meðalhófsreglu.

Annar minni hluti ítrekar þá afstöðu sína sem fram kom í nefndaráliti við 2. umr. að mikilvægt sé að íslenskur landbúnaður haldi velli í samtíð og framtíð til hagsbóta fyrir alla landsmenn og að verja megi opinberu fé í þágu þessa markmiðs. Eigi þetta að ganga eftir í sátt við samfélag og náttúru er nauðsynlegt að gæta þess að tryggt sé að neytendur hafi hag af ráðstöfunum í landbúnaði og að sjónarmiða um náttúruvernd og dýravelferð sé gætt til fullnustu.

Annar minni hluti vekur einnig athygli á gagnrýni í áðurnefndu nefndaráliti á verklag við gerð samninganna sem ekki var til þess fallið að skapa þeim þann trúverðugleika sem nauðsynlegur er til að þeir þjóni hlutverki sínu sem sáttmáli milli innlendra framleiðenda landbúnaðarafurða og almennings um framleiðslu á hollum neytendavörum í sátt við náttúru landsins. Þá vill 2. minni hluti ekki láta hjá líða að vekja athygli á því að samtímis því sem unnið var að gerð búvörusamninga og afgreiðslu þeirra var unnið að staðfestingu samnings milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, sem getur ógnað markmiðum búvörusamningsins. Sérfræðingar og ábyrgðaraðilar á sviði lýðheilsu og smitsjúkdóma hafa bent á að hætta geti verið á því að smitefni berist til landsins með hráum dýraafurðum og viðbúnaður hérlendis til að takast á við slíkt sé allsendis ófullnægjandi. Þetta er vissulega áhyggjuefni og ber vott um ámælisverðan skort á heildarstefnu í málefnum landbúnaðar og lýðheilsu.

Innlend framleiðsla á matvælum er afar mikilvæg með tilliti til loftslagmála og umhverfissjónarmiða almennt. Flutningsstarfsemi markar djúp vistspor og hefur óæskileg áhrif á umhverfið. Því er mikilvægt að sem skemmstur vegur sé milli framleiðenda matvöru og neytenda. Búvörusamningarnir stuðla að innlendri matvælaframleiðslu og geta því haft jákvæð áhrif á umhverfis- og loftslagsmál hér á landi en aðeins að því tilskildu að gætt sé fyrirhyggju og varúðar í landnýtingu og annarri umgengni við náttúru landsins.

Sauðfjárbúskapur er í vanda um þessar mundir og er vandinn tilfinnanlegastur á þeim svæðum þar sem bændur og fjölskyldur þeirra hafa framfæri sitt eingöngu eða að mestu leyti af fjárbúskap. Framleiðsla á lambakjöti er umtalsvert meiri en innanlandsneysla, sem hefur farið minnkandi undanfarin ár og áratugi, og nú blasir við verðlækkun á erlendum mörkuðum. Þetta hefur leitt til þess að sláturleyfishafar hafa tilkynnt bændum um lækkun á afurðaverði til þeirra sem nemur 12%. Það segir sig sjálft að þessi kjaraskerðing er mjög tilfinnanleg fyrir sauðfjárbændur. Starfsgreinin hefur gengið úr lagi á tímum fyrri búvörusamninga þar sem framleiðslustýring var afnumin og því miður er ekki að sjá að nýir samningar megni að rétta stefnuna af. Ástæða er til að ætla að það undirliggjandi markmið búvörusamninganna að styrkja búsetu á dreifbýlum svæðum fari forgörðum í samningunum sem nú verða gerðir og er það vitaskuld verulegur ljóður á þeim.

Að endingu ítrekar 2. minni hluti þá afstöðu sem lýst var í nefndaráliti við 2. umr. að þrátt fyrir að málið hafi tekið mikilsverðum umbótum er það samt ærið gallað. Við atkvæðagreiðslu um málið mun 2. minni hluti því styðja þær breytingartillögur sem hann telur horfa til bóta en sitja hjá að öðru leyti.

Þetta er kjarninn í nefndaráliti okkar sem liggur fyrir, framhaldsnefndaráliti. Við erum að sjálfsögðu ánægð með að tekið hafi verið tillit til margra þátta sem við höfum lagt áherslu á. Við teljum að þetta mál sé þannig vaxið að að sjálfsögðu eigi mismunandi flokkar að koma að því og allt sem gerir málið betra og ásættanlegra er af því góða, þótt að endingu verði þeir sem fóru af stað með það án nokkurs samráðs að bera ábyrgð á því. Ég tel að vinnan í nefndinni hafi verið til bóta og þar gerðir hlutir sem hefði mátt fara af stað með miklu fyrr í þessari vinnu með aðkomu fleiri, bæði hagsmunaaðila og flokka á Alþingi.

Breytingartillaga 2. minni hluta í atvinnuveganefnd, okkar Vinstri grænna, hljóðar svo:

„Fyrri málsliður efnismálsgreinar 8. töluliðar orðist svo: Við vörslusviptingu samkvæmt 1. mgr. skal Matvælastofnun fella niður allar opinberar stuðningsgreiðslur samkvæmt ákvæðum búvörulaga, nr. 99/1993, og búnaðarlaga, nr. 70/1998.“

Ég tek fram að í þessu skjali er þetta ekki orðað eins og ég las það upp og óska ég eftir að því verði breytt og skjalið prentað upp að nýju þannig að textinn verði eins og ég fer með hann í máli mínu.

Það kom fram spurning í andsvari hjá hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur um breytingartillögu meiri hlutans varðandi sviptingu opinberra greiðslna vegna brota á dýravelferðarlögum og hún var hvort ekki hafi verið skoðað að fara alla leið þannig að heimild væri fyrir því að svipta menn opinberum stuðningi ef brotið væri á þeim skepnum sem viðkomandi héldi sem féllu ekki undir opinberar greiðslur. Vissulega varð umræða í nefndinni um þessa hluti. Ég tók þátt í þeim umræðum. Ég taldi rétt að ganga alla leið og styrkja þetta enn frekar svo að það færi ekkert á milli mála að ekki væri liðið að brotin væru dýravelferðarlög á þeim hluta bústofns sem fellur ekki undir opinberan stuðning og að í kjölfar hefðbundinna ferla, aðvarana og annars sem Matvælastofnun vinnur eftir væri hægt að svipta viðkomandi opinberum stuðningi gagnvart þeim hluta sem fellur undir breingreiðslur. Mér finnst mikilvægt að við göngum alla leið. Ég er búin að láta skoða að það standist fullkomlega lögfræðilega að gera það með þeim hætti. Í raun og veru gekk fyrri tillagan sem ég lagði fram fyrir hönd 2. minni hluta í atvinnuveganefnd efnislega út á það sama, innihaldið var það sama, að Matvælastofnun hefði heimild til að grípa til þeirra úrræða að fella niður opinberan stuðning gagnvart þeim aðilum sem brytu dýravelferðarlög. Ég fór ágætlega yfir það í nefndaráliti mínu áðan að það eru ákveðnir ferlar sem Matvælastofnun fer eftir áður en kemur til svo harkalegra aðgerða. Ég sé enga ástæðu til að vera að draga úr því að dýraníð sé ekki liðið. Þá gildir einu hvort viðkomandi skepnur eru með opinberan ríkisstuðning eða ekki. Ef aðilinn verður uppvís að því að dýravelferðarlög eru brotin á búi hans gagnvart t.d. hrossum, sem enginn opinber stuðningur er við af hálfu ríkisins, getur Matvælastofnun að undangengnum aðvörunum og tilmælum svipt viðkomandi beingreiðslum þótt hann sé til að mynda líka með sauðfé og ekki hægt að sýna fram á að hann hafi brotið dýravelferðarlög gagnvart þeim hluta bústofnsins.

Þetta vil ég segja um málið. Það má svo sem margt fleira segja um það. Ég hef eins og fleiri hér virkilegar áhyggjur af hag sauðfjárbænda á jaðarsvæðum og hef fengið fregnir af því að margir eru að skoða hag sinn og hvort það sé framtíð í að halda áfram eða hvort menn eigi að bregða búi. Því miður eru einhverjir sem hafa nú þegar ákveðið að bregða búi og þá verður ekki aftur snúið. Við Íslendingar þurfum auðvitað að standa saman um landbúnað okkar og búa honum þau starfskjör að hægt sé að framfleyta sér í þeirri grein og að rekstrarskilyrði og annað séu þannig að við getum haldið áfram að framleiða heilnæmar og góðar landbúnaðarafurðir hér heima, í nærumhverfi við neytendur, og þurfum sem minnst á því að halda að flytja þær hingað með miklum tilkostnaði og loftslagsáhrifum, heimsálfa á milli. Ég tel að við þurfum að nota þessi þrjú ár vel til að fara yfir málin frá öllum hliðum og gera þetta starfsumhverfi betra gagnvart þeim sem vinna í greininni og horfa líka til afurðastöðva þannig að þegar verðlækkanir verða sé það ekki alltaf frumframleiðandi sem þarf að sitja eftir með sárt ennið og fá lækkanir á sig. Það þarf einnig að horfa á hinn endann þar sem eru hinar stóru verslanakeðjur, sem þurfa líka að taka þær á sig á. Þær skila milljörðum í hagnað meðan margur bóndinn er á kjörum sem eru langt undir lágmarkslaunum í landinu, sem ég tel ekki ásættanlegt.

Við afgreiðum þetta samhliða tollamálinu, innflutningi landbúnaðarafurða, tollasamningnum á milli Evrópusambandsins og Íslands, sem er mjög umdeildur. Ég mun vera með frekari atkvæðaskýringar þegar kemur að atkvæðagreiðslum þessara tveggja mála og bíð með að tjá mig meira um það að sinni.