145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir ræðu hans og vinnu í nefndinni með okkur öllum. Vinnan var mjög jákvæð og góð, ég tek undir það, og mikil og góð umræða. Það hefði verið gaman ef hv. atvinnuveganefnd hefði lagt fram fleiri breytingartillögur við þetta mál, því að ég er sannfærður um að þær hefðu verið til bóta. Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að ég tel að hann sé á sömu skoðun og ég, að mjög mikilvægt sé að mynda meiri samstöðu um íslenskan landbúnað en er í dag, eyða málum sem eru óskýr, hafa markmiðin skýrari og upplýsingaöflun betri og nánari þannig að neytendur og almenningur í landinu sé meira meðvitaður um hvað er í þessu öllu saman. Spurning mín til hv. þingmanns er: Telur hann ekki að sú tillaga sem ég flyt, um að landbúnaðarráðherra flytji þinginu þingsályktunartillögu þar sem hann skilgreinir samningsmarkmið ríkisins þannig alþingismenn á næsta kjörtímabili geti þá rætt málið, skipst á skoðunum, nefndin fengi málið til umfjöllunar, þingsályktun yrði tekin til seinni umræðu og afgreidd, sé liður í því að skapa meiri sátt um íslenskan landbúnað, ef þetta gegnsæi yrði viðhaft, í staðinn fyrir að nokkrir framsóknarmenn setjist niður og semji við aðra framsóknarmenn, sem er frekar illa sagt af mér en er sagt í gríni, sem leiðir til samnings eins og við erum með hér? Væri ekki full ástæða til að kanna þá leið og fara hana? Hún er sett fram vegna þess að ég er sannfærður um að það kæmi meira og betra út úr því og að það mundi eyða ýmsum skoðanaágreiningi sem uppi er.