145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hér hafa tekist á í þingsal í dag tveir skeleggustu talsmenn landbúnaðar sem reka skal með skynsemd að leiðarljósi, hv. þm. Haraldur Benediktsson og hv. þm. Kristján L. Möller. Ég eins og hv. þm. Kristján L. Möller lít á mig sem part af landbúnaðarvæng Samfylkingarinnar. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það þurfi að gera hlut bænda góðan. Ég hef alltaf litið svo á að þær fjárhæðir sem renna í gegnum búvörusamningana séu ekki neins konar afkomutrygging fyrir bændur enda eru upphæðirnar sem þeim eru þar tryggðar í reynd miklu lægri en verið er að semja um á almennum vinnumarkaði. Ég hef litið á þetta fyrst og fremst sem stuðning við búrekstur bænda í dreifbýli. Ég er þeirrar skoðunar að þörf sé á því að halda landinu í byggð og þess vegna sé mikilvægt að við styrkjum með einhverjum hætti eins og aðrar þjóðir landbúnað í hinum gisnu byggðum og sér í lagi á að leggja áherslu á þær byggðir sem hafa hvað veikastar stoðir undir.

Mér finnst oft í umræðum hér að menn misskilji að þetta er hinn upphaflegi tilgangur búvörusamninga af þessu tagi, sérstaklega eins og þeir hafa þróast í gegnum árin. Ég segi þess vegna alveg skýrt að ég er í hópi þeirra sem telja að við þurfum til þess að halda landbúnaði í landinu að greiða með honum. Sá stuðningur á að fara þangað sem mest þörf er á honum.

Höfuðgalli þessa samnings er hins vegar að mér finnst sem því markmiði sé ekki náð. Ég hef aldrei dregið dul á það að ég er þeirrar skoðunar að framleiðsla á sauðfé skipti máli fyrir dreifðar byggðir eins og t.d. á norðausturhorninu, á Vestfjörðum, Ströndum sérstaklega, í Skaftárhreppi og það er sjálfsagt að skoða með jákvæðum huga hvernig hægt er að styðja við bændur á þeim svæðum. En þegar maður horfir á þennan samning, sérstaklega sauðfjárhlutann, finnst mér liggja nokkuð ljóst fyrir að á sama tíma og skilaverð til bænda er að lækka verulega vegna aðstæðna á heimsmarkaði er afraksturinn og stuðningurinn við bændurna á þessum þungbýlustu stöðum að minnka. Þegar maður fer yfir það hvernig stuðningnum verður nú háttað blasir náttúrlega við í fyrsta lagi þessi vatnshalli sem allir þurfa að taka á sig, 70% reglan skiptir auðvitað máli. Þar að auki má ekki horfa fram hjá því að annar samningur sem undir þetta fellur, sem lýtur að mjólkurframleiðslu, er þess eðlis að líklegt er að búum muni fækka í framtíðinni, mjólkurbúin verði stærri, en það að bændur þurfi af einhverjum ástæðum að bregða mjólkurbúi þýðir ekki að þeir láti af framleiðslu. Það er líklegt að þeir noti þá fjárfestingu sem þeir eiga nú þegar með einhverjum hætti, t.d. til að snúa sér að auknum mæli að sauðfjárrækt og þá þynnist auðvitað sá sjóður sem sótt er í. Þetta leiðir allt til þess að þegar líður á þennan samning þá munu einmitt þeir bændur sem búa á þeim svæðum þar sem torbýlast er koma illa út úr þessu og hugsanlega verr en bændur, sauðfjárbændur, á öðrum svæðum þar sem byggðin er styrkari. Þetta er algjörlega í andstöðu við mín viðhorf. Þetta er mér í reynd óskiljanlegt.

Það sem mér finnst erfiðast við þessa samninga er að það er eins og menn hafi ráðist í að gera þá á bak við luktar dyr. Það hefur verið haft mjög lítið samráð. Ég verð var við það, miðað við gagnrýni frá bændum, að ákaflega lítið samráð hefur verið haft við bændurna sjálfa og ég tala nú ekki um þær tilraunir sem hafa verið gerðar til þess að ná samstöðu á Alþingi. Þær hafa nánast verið engar. Vitaskuld ber að lofa það að innan atvinnuveganefndar hafa formaður nefndarinnar, hv. þm. Jón Gunnarsson, og hv. þm. Haraldur Benediktsson vissulega lagt sig í líma til þess að bjarga því sem bjargað varð og komið á síðustu metrunum á einhvers konar samráði og bættri samstöðu um þetta mál. En það verður að segjast alveg eins og er að fram að þeim tíma var ekkert samráð á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, alls ekki neitt. Það harma ég, virðulegi forseti.

Það sem segja má um umræðuna er að það eru ákaflega fáir sem tala af einhverri bjartsýni fyrir framtíð landbúnaðarins. Hv. þm. Haraldur Benediktsson er í hópi örfárra þingmanna sem tala af reynslu og mannviti um það. Það er alltaf gaman að eiga samræður við hv. þingmann um landbúnað. En mjög fáir sem mætti telja og ættu að vera skeleggir talsmenn bænda hafa komið hér upp til þess að benda á þá möguleika sem eru fyrir hendi í greininni. Við skulum ekki horfa fram hjá þeirri staðreynd að við öll höfum ákveðnar siðferðilegar skyldur í heimi sem kallar á meiri mat. Spár um mannfjölda eru þannig að til viðbótar við þá nánast 7 milljarða manna sem búa á hnettinum í dag er líklegt að fyrir miðja öldina muni bætast við 3 milljarðar. Þetta kallar á það að matvælaframleiðsla í heiminum verði aukin um kannski 60–80% á næstu fimm tugum ára. Þar verðum við auðvitað á Íslandi líka að horfa til þess að við höfum ákveðnar skyldur í þeim efnum. Það verður kallað í framtíðinni eftir meiri framleiðslu af því sem við getum búið til. Vissulega eru aðstæður á Íslandi með þeim hætti núna og markaðsaðstæður þannig að það blæs kannski ekki byrlega, en menn verða að horfa til langrar framtíðar. Hér finnst mér ríkisstjórnin hafa brugðist.

Nú ætla ég að rifja upp fyrstu ræðuna sem hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hélt hér, stefnuræðu forsætisráðherra á kvöldi þess dags sem hann sté hér fyrst inn fyrir dyr. Þá lofaði hann því og lýsti því yfir eins og hann hafði áður gert þegar hann myndaði ríkisstjórn með formanni Sjálfstæðisflokksins á Laugarvatni að eitt af því sem þessi ríkisstjórn mundi gera væri að leggja fram áætlun um framtíðarþróun og framtíðarmöguleika íslensks landbúnaðar. Ég get ekki annað en áfellst hæstv. ríkisstjórn fyrir að hafa ekki staðið við þessi loforð.

Eitt af því sem þarf fyrir landbúnaðinn er vitaskuld það að einhver standi upp og tali fyrir hann. Það á ekki að vera hlutverk okkar sem lifum hér í 101, þó að menn eins og ég hafi ágætisskilning á gildi og mikilvægi landbúnaðarins og vilji bændum vel, það á auðvitað að vera hlutverk þeirra sem eru kosnir á Alþingi beinlínis vegna þess að þeir bjóða sig fram sem fulltrúar bænda. Hvar eru þessir fulltrúar bænda í umræðunni í dag? Hver bendir á þá möguleika sem vissulega eru fyrir hendi?

Við skulum ekki gleyma því að ef við horfum t.d. á vanrækta grein landbúnaðarins eins og framleiðslu á nautakjöti, og við vitum að þörf er á nautakjöti því að innflutningur á því utan úr heimi er sívaxandi, þá er staðreyndin eigi að síður sú að framleiðslukostnaðurinn á Íslandi án þess að búið sé að straumlínulaga búgreinina, þ.e. nautgriparæktina, er ekki meiri en við sjáum að meðaltali innan OECD-landanna. Þá spyr maður sjálfan sig: Hvernig stóð á því að það var ekki fyrr en komið var fram á seinni helming kjörtímabilsins sem menn eygðu þetta og hófu það ferðalag að reyna að byggja upp nautgriparæktina, m.a. með því að leyfa innflutning á erfðaefni? Ef það hefði ekki verið fyrir þann sem hér stendur og hv. þm. Kristján L. Möller og auðvitað ýmsa góða menn í stjórnarliðinu hefði sú löggjöf tæpast verið samþykkt. En hún er þrátt fyrir allt undirstaðan að því sem gæti orðið blómleg atvinnugrein.

Það eru nýmæli í þessum samningi sem vissulega má líka taka undir að sé betra að verja fé í en ýmislegt annað sem menn hafa fyrst og fremst einbeitt fjárveitingum að. Ef menn á annað borð eru að eyða fjármunum í þessa samninga þá finnst mér það lofsvert að inn í samninginn kemur sérstakt verkefni um stuðning við skógarbændur til þess að auka virði skógarafurða. Það er verulega jákvætt. Það er sömuleiðis kveðið á um annað nýtt verkefni sem felur í sér mat á gróðurauðlindum og er ætlað til þess að rannsaka frekar land sem er nýtt til beitar. Við vitum það að einn af þeim áfellisdómum sem landbúnaðurinn og sérstaklega sauðfjárræktin býr við er að á sumum stöðum ofnýti hún landið. Við verðum að hlusta á gagnrýni af þessu tagi. Þess vegna segi ég það að við eigum að beita samningum af þessu tagi m.a. til þess að beina sauðfjárrækt á þá staði þar sem landið þolir það vel eins og t.d. á Strandirnar, eins og t.d. á minn elskaða Árneshrepp, sem ég nefni hér oft sem dæmi og gæti haldið langa ræðu um Árneshrepp þar sem undirstöðurnar eru stór og gild sauðfjárbú sem munu því miður veikjast vegna þess hvernig þessi samningur er í laginu og vegna þess að menn sáu ekki fyrir hvernig niðurstaða hans yrði hér.

Það er líka jákvætt í þessum samningi að stuðningur við lífræna framleiðslu er tífaldaður frá því sem áður var. Það er verulega jákvætt. En að öðru leyti, frú forseti, sé ég ekki margt horfa til framtíðar í þessum samningi. Ef hann hefði t.d. komið hingað inn eins og við vildum margir og eins og landbúnaðarvængur Samfylkingarinnar talaði fyrir strax í upphafi þessa kjörtímabils, ef þingmenn hefðu fengið að ráða þessum ráðum í samráði við aðra aðila máls, þá mundi hann hafa litið allt öðruvísi út. Þá hefðu ekki risið þessar hörðu deilur sem hér hafa verið og þá hefði verið hugsanlegt að rökin sem við höfum fært fram gegn því sem erfiðast er við þennan samning hefðu ekki fallið í svo grýttan svörð og raun ber vitni.

Það sem mér finnst vitaskuld langerfiðast við þessa löggjöf sem við erum að leggja síðustu hönd á er sú staðreynd að ekki er vilji fyrir því af hálfu stjórnarliðsins að afnema undanþáguna frá samkeppnislögum sem mjólkuriðnaðurinn býr við. Það er erfiðasta málið sem landbúnaðurinn glímir við í dag. Mál sem hafa komið upp vegna þess hafa kastað skugga yfir hann.

Staðreyndin er sú að í landinu er sammæli um það að menn keyri ekki af neinum ofsa gegn landbúnaðinum. Það er fullkomlega óeðlilegt að ætlast til þess að skyndilega verði öllum stoðum kippt undan honum sem hafa verið reistar af hálfu ríkisins. Það er ekki vitræn umræða sem hefur ekki heyrst hér sem betur fer nema hjá tiltölulega fáum þingmönnum, en hún hefur þó heyrst jafnvel í þessum sölum.

Þetta vil ég að komi algjörlega skýrt fram vegna þess að ég er ekki í þeirra hópi sem telja að hægt sé í einu vetfangi að hætta stuðningi. En við skulum horfa á þróunina síðustu áratugi. Í reynd hefur hlutfallslega verið dregið jafnt og þétt úr stuðningi við landbúnaðinn. Þegar ég steig inn á þing og við áttum hér harðar deilur í kringum 1990 þá var staðan þannig að stuðningur við landbúnað var 5% miðað við landsframleiðslu. Hann hefur ekki verið hækkaður í absalúttölum síðan heldur hefur þynnst jafnt og þétt út hlutfallslega. Í dag er svo komið að stuðningur við landbúnað er sennilega innan við 1%. Staðreyndin er sú að í mörgum löndum eyða menn meiru en þessu. Það sem skiptir hins vegar máli er að því fé sem er varið til landbúnaðarins og til þess að styrkja hann sé varið með skynsamlegum hætti. Þar þarf í ríkum mæli og miklu ríkari mæli en gert er að láta hann vinna að þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í öðrum greinum, t.d. í samningi sem við höfum gerst aðilar að og kenndur er við höfuðborg Frakklands, París, um aðgerðir til þess að draga úr hlýnun loftslags. Þennan samning hefði verið hægt að hanna með þeim hætti að hann þjónaði betur þeim markmiðum. Ég segi það algjörlega sem mína skoðun að miklu vitrænna hefði verið að taka stærri skref yfir í það kerfi sem er t.d. í Evrópu þar sem bændur fá beinlínis stuðning til þess að búa áfram á jörðum sínum, sinna landinu, sinna gróðurvernd, sinna verndun landnæðis.

Að síðustu, frú forseti, þá skulum við ekki gleyma því að landbúnaðurinn hefur öðlast nýtt vægi í landsframleiðslunni með því að hann, þessi forna höfuðgrein, er í reynd orðin ómissandi stuðningsgrein við ferðaþjónustu í landinu sem er sú grein sem í dag skilar mestum gjaldeyri. Án þess að við hefðum landbúnaðinn og hefðum byggð í hinum strjálu svæðum landsins í dag hefðum við ekki sömu möguleika og við höfum til þess að efla ferðaþjónustu, til að víkka út jaðra ferðamannatímans vegna þess að við þurfum einmitt bændurna sem bjóða upp á gistingu til að sinna ferðaþjónustu. Með þessum hætti er hægt að halda því fram sem ekki var hægt fyrir tíu árum og alls ekki fyrir 20 árum að landbúnaður í landinu er orðinn ómissandi stoðgrein við ferðaþjónustu. Við skulum líka horfa á það.

En gallarnir við (Forseti hringir.) þetta samkomulag eru stórir og þar er stærstur sá galli að mjólkuriðnaðurinn fær áfram að búa við undanþágu frá samkeppnislögum. Þess vegna hefði (Forseti hringir.) átt að fallast á þá tillögu sem var felld við 2. umr. um að samningurinn yrði tvímælalaust endurskoðaður á næsta kjörtímabili, (Forseti hringir.) en það er ekki í gadda slegið, því miður.