145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ærið tilefni í kjölfar ræðu hv. 7. þm. Suðurk. til að ræða heiðarleika í stjórnmálum. Það var að vísu ekki ræða hans sem fékk mig til að vilja tala aðeins um það heldur atburðir síðustu daga þar sem komið hefur fram opinberlega að fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra telji að brotist hafi verið inn í tölvuna sína sem allir hljóta auðvitað að átta sig á að er mjög alvarlegt.

Nú get ég ekki að því gert að þetta mál er farið að minna mig mjög mikið á hið svokallaða lekamál. Maður á sem sagt að venjast því að taka öllu með mjög miklum fyrirvara. Maður á að venjast því að salta allt sem stjórnmálamenn segja vegna þess að þeim er ekki treystandi til að segja nokkurn tímann eitthvað sem hægt er að staðfesta með raunverulegum gögnum. Þegar hlutirnir eru athugaðir kemur í ljós að það var í skásta falli mjög, mjög villandi sem var sagt. Þessu eigum við að venjast, þessu á almenningur bara að venjast. Þetta á bara að vera hluti af pólitíkinni. Svona haga stjórnmálamenn sér.

Það er til skammar hvernig stjórnmálamenn leyfa sér að hagræða sannleikanum til þess eins að koma höggi á aðra eða lyfta sjálfum sér upp. Það er til skammar fyrir okkur sem fólk, sem manneskjur, ekki bara sem stjórnmálamenn, ekki bara fyrir þessa iðngrein eða hvað við eigum að kalla það. Fólk á ekki að haga sér svona hvort sem það er í stjórnmálum eða ekki. Mér finnst alveg kominn tími til þess að við förum að ræða það sem samviskuspurningu, ekki bara pólitíska spurningu.

Það getur kostað smávinnu að vera heiðarlegur því að stundum þarf maður að leggja vinnu í að kynna sér gögn og hugsa málin til enda. Þegar fólk leyfir sér að sleppa því bara til þess að fá betri höggstað á andstæðingi sínum er það ekki í lagi. Það er óheiðarlegt, virðulegi forseti. Það er þessi hefð, þessi hegðun, sem dregur úr virðingu hins háa Alþingis, ríkisstjórnar og stjórnmálamanna almennt. Mér finnst kominn tími til að við hugsum öll um þetta. Öll sem eitt.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna