145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða hér eina skýrslu sem er McKinsey-skýrslan um Landspítalann. Mér finnst það mjög áhugaverð skýrsla og við höfum fengið kynningu á henni í fjárlaganefnd. Svo var haldinn kynningarfundur í heilbrigðisráðuneytinu. Ég hélt að þessi skýrsla mundi fá miklu meiri athygli í fjölmiðlum og mundi verða rædd. Mér finnast góðar tillögur sem þar eru, a.m.k. er þess virði að skoða þær betur. Þar er rætt um kerfisbreytingar að einhverju leyti og svo er það spurningin um hvað við fáum fyrir peninginn. Mér hefur fundist krafan um að setja sífellt meira fé í heilbrigðiskerfið háværari en spurningin um hvað við fáum fyrir peninginn. Hér er t.d. verið að gagnrýna að árangursmælingar skorti. Hvernig vitum við hvað við fáum fyrir peninginn ef við mælum ekki árangurinn?

Það kom mér svolítið á óvart að sjá síðan skýrslu sem kallast skýrsla meiri hluta fjárlaganefndar, fá töluvert mikla athygli í fjölmiðlum. Mitt fréttamat hefði verið að þessi skýrsla hér ætti að fá það pláss.

Ég vænti þess að skýrslan verði líka innlegg í kosningabaráttuna. Ég er í það minnsta forvitin að heyra hvað flokkunum finnst um skýrsluna og hvort þeir sem ná hér völdum muni kannski halda á þá braut sem McKinsey leggur til. Ég hvet fólk til að kíkja á skýrsluna, þetta er ekki erfið eða löng lesning. Ég hvet líka RÚV til að skella í nokkra fréttaskýringarþætti um heilbrigðiskerfið og gera meira af fréttaskýringarþáttum yfirleitt. Ég vil að afnotagjöldin mín fari í það.


Efnisorð er vísa í ræðuna