145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Þann 2. september sl. birtist í Fréttablaðinu grein eftir framkvæmdastjóra Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Ernu Reynisdóttur. Í þeirri grein, sem bar fyrirsögnina „Tökum höndum saman um gjaldfrjálsa grunnmenntun“, segir hún m.a., með leyfi forseta:

„Kostnaður foreldra vegna innkaupa á námsgögnum í upphafi skólaárs getur verið töluverður baggi fyrir barnafjölskyldur. Hefðin fyrir þessari gjaldtöku hefur haldist hér á landi þrátt fyrir að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið lögfestur, en í honum er kveðið á um rétt barna til grunnmenntunar án endurgjalds. Kostnaðarþátttaka foreldra er því í raun ólögleg samkvæmt sáttmálanum […] Krafan um að foreldrar greiði fyrir námsgögn getur auk þess stuðlað að mismunun sem stríðir gegn ákvæðum barnasáttmálans. Gleymum ekki að skólinn er hornsteinn jafnræðis í samfélaginu og þar eiga börn að geta verið þátttakendur án þess að finna fyrir mismunandi efnahagsstöðu foreldra sinna.“

Það er sorgleg staðreynd að hér á landi þurfa hundruð barna aðstoð frá félagsþjónustu og hjálparsamtökum til að geta keypt námsgögn.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun á vef samtakanna til að kalla eftir stuðningi almennings við að þrýsta á yfirvöld að gera grunnskólann gjaldfrjálsan í raun og virða þau réttindi sem öll börn eiga samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er mjög þörf áskorun hjá samtökunum.

Þann 16. ágúst sl. lagði ég fram frumvarp ásamt fleirum sem tekur einmitt á þessu máli og vil leyfa mér að skora á stjórn þingsins að veita málinu brautargengi nú á þessu þingi og svara með því ákalli sem okkur hefur borist utan úr samfélaginu. Það er mikilvægt að við tryggjum að börn sem búa við bágan efnahag fái örugglega öll þau námsgögn sem þau þurfa. Annars er augljóslega mikil hætta á því að þau fái ekki sömu tækifæri til náms og önnur börn og viðhorf þeirra til skólans verði neikvæð.

Herra forseti. Ég er sannfærður um að íslenska þjóðin er einhuga um að reyna að koma í veg fyrir það og vill að þetta verði tryggt með lögum. (Forseti hringir.) Klárum þetta mál.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna