145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:32]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er tillaga mín um að mjólkuriðnaðurinn skuli falla undir samkeppnislög eins og aðrar atvinnugreinar í landinu og nokkrar aðrar búgreinar, eins og sauðfjárrækt og litlu mjólkurstöðvarnar, Mjólka, Arna og Kú. En hér er hins vegar komið til móts við sjónarmið sem fram komu við fyrri umræður, sérstaklega hjá nokkrum sjálfstæðismönnum, um að þetta taki ekki gildi strax. Þess vegna er sett hér inn bráðabirgðaákvæði að undanþágan skuli afnumin frá og með 1. janúar 2020. Það eiginlega beinlínis gert til þess að sjálfstæðismenn geti þá loksins fylkt sér bak við þessa tillögu, vegna þess að aðalröksemd sjálfstæðismanna hingað til hefur verið sú að ekki sé hægt að gera þetta um leið og lagagreinin er samþykkt. En hér er sólarlagsákvæði. Gjörið svo vel, sjálfstæðismenn, sýnið hvað þið viljið í frjálsum viðskiptum og hvaða grundvöll menn vilja skapa (Forseti hringir.) utan um atvinnugreinar á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)