145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar í upphafi að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur verið vakin varðandi dýraníð. Ég tel að meiri hlutinn bregðist hárrétt við þeim athugasemdum sem komu fram. Sú tillaga sem var lögð fram áðan gengur að mínu mati of langt vegna nokkurra atriða. Í fyrsta lagi er það þannig að greiðslur til bænda geta verið grundvöllur til þess að bæta og laga til hjá sér til að koma í veg fyrir frekari slys eða dýraníð eða eitthvað slíkt. Í öðru lagi getum við ekki horft fram hjá því að það eru margar ástæður fyrir því að svona vondir atburðir, sem við köllum kannski dýraníð, vanhirðu eða eitthvað slíkt, gerast á búum. Það geta einfaldlega verið veikindi. Það geta verið veikindi ábúenda, það eru svo margir hlutir sem geta orsakað þetta. Við hljótum að vilja gefa þessu fólki sem á það alla vega skilið séns á að koma undir sig fótunum aftur og halda áfram búskap. Það er of hart að taka allar greiðslur af. En að taka greiðslur af þeim dýrum t.d. sem farið er illa með er hárrétt að gera. Það á ekki að leyfast neinum að fara illa með dýr. En ef við ætlum að taka t.d. jarðræktargreiðslur, greiðslur sem koma fyrir aðra gripi, annan búfénað, þá er gengið allt of langt. Þá er verið að segja að við ætlum bara að kippa öllu undan þessu fólki, í staðinn fyrir vítur, ávíta (Forseti hringir.) það, vörslusvipta af þeim tegundum eða dýrum sem eru illa haldin en leyfa þeim svo (Forseti hringir.) að halda ...