145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:46]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Manni líður svolítið eins og maður sé að koma hingað upp til að bera af sér sakir. En ég vil minna á að í landinu eru í gildi í dag lög um velferð dýra þar sem kemur m.a. fram að leiki grunur á að um sé að ræða alvarlegt brot gegn lögunum eða reglugerðum sem eru settar með stoð í þeim getur lögregla fyrirvaralaust tekið dýr úr vörslum eiganda eða umráðamanns samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar. Mér finnst alltaf vera númer eitt, tvö og þrjú í þeim málum þar sem velferð dýra er í húfi að fjarlægja dýrin úr umönnun þeirra aðila. Svo er tillagan sem hér er borin fram, eins og hefur komið fram í atkvæðaskýringu hv. þm. Haralds Benediktssonar, að sjálfsögðu í samræmi við þau lög sem fyrir eru og er skýlaus heimild sem Matvælastofnun getur haft styrk af ef svo ber undir. En við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því sem stendur í dýravelferðarlögum, sem við erum ekki að finna upp hérna í dag eða í þessari umræðu, og hefur verið til staðar í fjölda ára. Það getur verið um minni brot að ræða sem hægt er að leysa úr bara með því að benda fólki á það.