145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:49]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í gegnum alla þessa vinnu atvinnuveganefndar hefur þetta verið einn af þeim punktum sem við í minni hlutanum höfum talað mest um. Þetta var eitt af þeim atriðum í þrettán liðum sem við í Bjartri framtíð höfðum í frávísunartillögu okkar. Þar er einmitt rakið hvernig atvinnuveganefnd tók þetta viðurlag út árið 2012 úr lögum um velferð dýra til þess að setja það inn í búvörusamningum. Hér er ekki gengið nógu langt. Ég skil ekki af hverju. Ég hef ekki ímyndunarafl í að ná utan um af hverju fólk vill hafa einhvern varnagla á því að ekki megi refsa þeim eða taka af þeim styrki sem fara ekki vel með skepnur. Ég næ bara ekki utan um það. Ég skil ekki hvernig Alþingi Íslendinga getur ekki haft þetta á hreinu. Við munum greiða atkvæði með tillögu meiri hlutans en hún gengur allt of skammt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)