145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég segi já við þessari tillögu vegna þess að hún er skömminni skárri en ekki neitt. En ég minni á að í tengslum við frumvarp um breytingu á lögum um velferð dýra óskaði atvinnuveganefnd eftir því við ráðuneytið að það kæmi með skýrt ákvæði um dýraníð við gerð búvörusamninga. Það var ekki gert. Þess vegna tekur nefndin þetta upp hér. Tillaga sem ég flutti við 2. umr. um breytingu á lögum um velferð dýra átti að vera þar. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir flutti hér tillögu áðan um að það væri skylt. Það er mikill munur á skylt eða heimilt. En hér er gengið aðeins styttra. Skömminni skárra, eins og ég segi. Ég vil bara minna á að við höfum séð fréttir í sjónvarpi af vanhöldum dýra í ákveðnum hreppi hér á landi. Það var með stuðningi ríkisins. Það þarf enginn að segja mér (Forseti hringir.) að ef greiðslur væru felldar niður mundi það auka á þann vanda. Nei. Það mundi hins vegar auka heimildir til þess að stoppa hann, (Forseti hringir.) vegna þess að þetta mál (Forseti hringir.) þurfti að fara einhverja hringferð í dómskerfinu til þess að stoppa það dýraníð sem þar var.