145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:09]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Okkur í Bjartri framtíð þykir afskaplega vænt um íslenskan landbúnað. Það er mjög mikilvægt að um hann ríki sátt. Hér er verið að leggja fram búvörusamninga sem eru gerðir án samráðs við mjög mikilvæga aðila, aðila í umhverfismálum, neytendur o.s.frv. Hér er ekki tekið tillit til samkeppnissjónarmiða og það er ekkert í þessari vinnu sem er líklegt til að leiða til aukinnar sáttar um íslenskan landbúnað. Það er miður. Hér er verið að samþykkja samning sem breytir miklu, sem er ekki endilega til góðs. Það er sagt: Gerum það en bara til þriggja ára þannig að það sé aftur hægt að hefja ferlið og kannski með betra samráði. Tökum samráðið eftir á en samþykkjum þetta fyrst.

Ég hef sagt það áður: Þrjú slæm ár er skárra en tíu ár. En þrjú slæm ár eru slæm ár og það er ekki nokkur leið að styðja samning sem býður upp á þetta. Við segjum nei.