145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við vinstri græn greiðum ekki atkvæði við lokaafgreiðslu á búvörusamningi. Við munum sitja hjá og teljum að núverandi stjórnvöld eigi að bera ábyrgð á samningnum. Hefðum við haft eitthvað um það að segja hefði undirbúningur hans verið með allt öðrum hætti, það hefði verið reynt að ná miklu breiðari sátt og vinna með þeim greinum sem í hlut eiga til að ná fram sem öflugastri niðurstöðu fyrir íslenskan landbúnað. Við vinstri græn viljum að íslenskur landbúnaður vaxi og dafni hér innan lands og teljum að það sé til hagsbóta fyrir neytendur landsins að hafa framleiðslu sem næst neytendum. Það er líka umhverfisvænt og við höfum lagt fram breytingu á samningnum núna þar sem umhverfisáhrif verða mæld og skoðuð ásamt mörgu fleiru í þeirri endurskoðun sem fer fram næstu þrjú árin.

Við teljum að unnið hafi verið ágætlega í atvinnuveganefnd að því að reyna að bæta þetta. En það varð ekki lengra komist. Við höfum stutt tillögur (Forseti hringir.) sem komu þar fram til bóta en við hörmum að Alþingi geti ekki greitt atkvæði (Forseti hringir.) með þeirri tillögu sem við lögðum fram um dýravelferð. Við munum sitja hjá við heildarafgreiðslu samningsins.