145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:20]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð erum þess fullviss að íslenskur landbúnaður geti staðist samkeppni við innfluttar matvörur og sömuleiðis við erlendar matvörur á erlendum mörkuðum. Þess vegna er mikilvægt að opna fyrir meiri innflutning og útflutning íslenskra landbúnaðarvara hreinlega til þess að gefa íslenskum landbúnaði tækifæri. Við eigum að treysta íslenskum landbúnaði til þess.

Hér er verið að stíga skref en ég vek athygli á því að þetta er pínulítið skref vegna þess að meiri hlutinn af þeim erlendu matvælum sem verið er að leyfa innflutning á er nú þegar fluttur inn á undanþágum vegna skorts á þeim á íslenskum markaði. Hér er verið að taka pínulítið skref. Í búvörusamningnum sem var samþykktur rétt áðan voru hækkaðar álögur á innflutta osta sem draga úr jákvæðum áhrifum á íslenskum neytendamarkaði (Forseti hringir.) í kjölfar þess samnings. Þó að þessi samningur sé lítið skref er hann samt gott skref í rétta átt og við styðjum hann.