145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði með tillögunni og á móti frávísunartillögunni. Tollar eru að mínu mati þess eðlis að sönnunarbyrðin er á þeim sem vilja halda þeim uppi. Ég tel tolla mjög vonda tegund af skattheimtu, ef svo mætti að orði komast, og er almennt á móti þeim og þykja þeir ekki réttmætir nema það séu mjög skýrar ástæður fyrir þeim og búið að sýna fram á að þær ástæður séu réttmætar. Þótt alltaf sé hægt að velta fyrir sér hvort eitthvað eitt eða annað geti gerst við það að fella niður tolla er ég þeirrar skoðunar að við eigum að fella niður tolla þegar ekkert er því til fyrirstöðu.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja þetta mál og af þeim ástæðum greiði ég atkvæði með því og vona að á endanum losnum við við alla tolla alls staðar í heiminum.