145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:28]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem aðeins upp til að vekja athygli á því sem fram kom fyrir utanríkismálanefnd þegar nefndin fjallaði um þessi mál og þennan tollasamning sem við getum ekki breytt. Við getum bara annaðhvort samþykkt hann eða synjað honum í þinginu. Það kom mér á óvart hversu margir komu fyrir nefndina til að vara við þessum samningi. Við höfum öll hag neytenda að leiðarljósi, við viljum tryggja að íslenskir neytendur geti haft aðgang að hollum, góðum og heilnæmum matvælum, matvælaöryggi, lýðheilsu og svo eru byggðasjónarmiðin. (ÖS: Við viljum slátur.) Við viljum slátur, eins og Össur segir.

Þá er spurningin: Er afnám tolla rétta leiðin til þess? Hérna hefur hver þingmaðurinn af öðrum komið upp og sagt: Við höfum fulla trú á íslenskum landbúnaði, gæðum hans og að hann geti keppt í samkeppni við algjörlega niðurgreiddan landbúnað þar sem allar reglur um dýravelferð, lyfjanotkun, sýklavarnir og vinnumarkað eru brotnar. Ætlum við að fela okkar íslenska landbúnaði að keppa við þetta uppi á Íslandi? (Forseti hringir.) Það er bara þannig að allar þjóðir vernda sinn landbúnað gegn þessu og eru að reyna að tryggja sig. Ég held að við séum að leika af okkur. Við eigum að flytja inn matvæli á okkar eigin forsendum (Forseti hringir.) frá þeim ríkjum sem uppfylla sömu kröfur og við gerum til okkar eigin landbúnaðar en ekki þennan samning.

Ég mun sitja hjá.