145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við höfum fyrir framan okkur tollasamning við Evrópusambandið. Mér heyrist að í umræðunni bregði því fyrir að það sé lítið í þessu fyrir okkur Íslendinga, þ.e. þótt Evrópusambandið sé að gefa eftir verði hindranir samt sem áður á innflutningi til Íslands. Menn geta huggað sig við að Evrópusambandið hefði aldrei gert slíkan tvíhliða samning við Íslendinga sem opnaði ekki fyrir aukinn innflutning inn til Íslands, það er alveg öruggt, þannig að við getum hætt þeirri umræðu. Við erum hins vegar með dæmi um samning sem er öndverður við aðrar aðgerðir sem við höfum beitt okkur fyrir í tollamálum á þessu kjörtímabili þar sem við felldum einhliða niður tolla upp á u.þ.b. 5–6 milljarða á ári. Þetta eru þessir tveir heimar sem eru í tollamálum, annars vegar að menn taki einhliða ákvörðun um að fella niður tolla í þágu neytenda í heimaríkinu og hins vegar að menn noti tvíhliða samninga til að sækja inn á aðra markaði. Þetta er dæmi um slíkan samning sem ég styð heils hugar.

En höfum í huga í umræðunni um að við ættum að taka meira af vörum frá Evrópusambandinu (Forseti hringir.) hingað inn í samkeppni við íslenskar landbúnaðarafurðir að Evrópusambandið setur í styrki til bænda á árunum 2014–2020 litla 12.000 milljarða íslenskra króna. Það setur 12.000 milljarða til bænda til að framleiða vöruna sem menn segja (Forseti hringir.) að íslenskir bændur eigi að geta keppt við án styrkja. (ÖS: Þorir Framsóknarflokkurinn ekki í ESB?)