145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[15:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að málið sé fram komið með þeim hætti sem hér er lagt upp með og þessu ferli í rammaáætlun sé haldið áfram og menn reyni að halda áfram með þetta sáttaferli eða ferli sem lagt hefur verið upp með þannig að leikreglurnar séu skýrar.

Það sem truflar mig hins vegar er að hæstv. ráðherra skuli í lok ræðu sinnar kynna það að málið eigi að fara til atvinnuveganefndar. Ástæðan fyrir því að það truflar mig er sú að þegar við gerðum þær breytingar að færa málefni rammaáætlunar yfir til umhverfisráðuneytisins á síðasta kjörtímabili, þá var það gert með það fyrir augum að málið væri að fá breiðari ásýnd, þ.e. að við ætluðum að gera verndinni jafn hátt undir höfði og nýtingunni. Nú gerist það í annað sinn á þessu kjörtímabili að ákveðið er að horfa á málið út frá nýtingunni og leggja til af ráðherra sjálfum að málaflokkurinn eða umfjöllun um þetta mál fari til atvinnuveganefndar.

Þegar við gerðum athugasemdir við það þegar hæstv. núverandi forsætisráðherra og þáverandi hæstv. umhverfisráðherra lagði hið sama til fyrr á þessu kjörtímabili, þegar um var að ræða Hvammsvirkjun, þá sagði þáverandi hæstv. ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, að ástæðan fyrir því að hann legði til að málið færi til atvinnuveganefndar væri vegna þess að í því tilfelli væri eingöngu um að ræða flutning úr bið í nýtingu og ekki væri verið að fjalla um verndarflokkinn og þar af leiðandi taldi hann rétt að málið færi til atvinnuveganefndar.

Núna er hins vegar allt undir og ekki hægt að beita sömu röksemdafærslu. Að mínu mati er algjörlega ófært að ráðherra umhverfismála sem fer með þennan málaflokk skuli leggja til að málið fari í sama farveg og fyrrverandi ráðherra rökstuddi að væri gert á forsendum nýtingar. Hér eigum við að fjalla um málið á breiðum grunni. Ég bið (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra að endurskoða hug sinn vegna þess að hér er um viðsnúning að ræða.