145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég gera það að formlegri tillögu minni að þessu máli verði vísað að lokinni fyrri umr. til umhverfis- og samgöngunefndar og óska eftir því við frú forseta að sú tillaga verði borin undir atkvæði ef svo ber undir hér á eftir.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er sú staða sem hefur komið fram eða það sem hefur verið bent á í umsögnum sem varðar villta laxinn í Þjórsá og hefur verið staðfest að engri óvissu um afdrif laxfiska hefur verið eytt í þeim rannsóknum sem hafa verið unnar. Sú óvissa er enn fyrir hendi fyrir utan þá staðreynd að umhverfismat á þessum framkvæmdum, Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun, er frá árunum 2001–2003 og það hefur verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að þetta gamla umhverfismat sé enn í gildi þannig að enn er beðið úrskurðar, vænti ég.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af stöðu villta laxins, sem er auðvitað gríðarleg verðmæti fyrir vistkerfið, að þessi óvissa sé uppi um afdrif hans. Ég átta mig alveg á því að um það er deilt hvort það er á borði verkefnisstjórnar að taka afstöðu til þess miðað við þann ramma sem hún starfar innan. En það er eigi að síður á ábyrgð hæstv. ráðherra að engar ákvarðanir verði teknar sem geti ógnað þeim verðmætum sem við eigum í lífríkinu, fyrir utan að hér hefur ekki verið minnst á efnahagslegu verðmætin sem felast í laxinum. Það er stundum eins og efnahagsleg verðmæti séu mjög þröngt skilgreind og fyrst og fremst út frá orkunýtingu. En við vitum það auðvitað sem hér erum að þau geta verið víðfeðmari, t.d. hvað varðar villta laxinn sem felur í sér mikil efnahagsleg verðmæti.