145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þá er okkur ákveðinn vandi á höndum ef hæstv. ráðherra ætlar sér ekki að ræða í fyrri umr. um rammaáætlun um kosti og galla einstakra kosta. Hæstv. ráðherra leggur þessa tillögu fram sem sína tillögu og gerir tillögu verkefnisstjórnar að sinni tillögu, væntanlega eftir að hæstv. ráðherra hefur farið yfir kosti og galla hvers einasta kosts sem fjallað er um. Hæstv. ráðherra ber ábyrgð á því að verja vistkerfið og verja líffræðilega fjölbreytni. Hvernig ætlar þá hæstv. ráðherra að verja villta laxastofninn? Hvaða önnur tæki hefur hæstv. ráðherra innan stjórnkerfisins þegar búið er að setja þessar virkjanir í nýtingarflokk? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að bregðast við því sem hér kemur fram um að engri óvissu um afdrif villta laxins sé eytt í þeim rannsóknum sem hafa verið unnar? Þetta er tillaga hæstv. ráðherra sem hér er undir. Ég hlýt þá að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hún (Forseti hringir.) að tryggja að þessi tillaga um að setja (Forseti hringir.) þessar virkjanir í nýtingarflokk valdi ekki óbætanlegum skaða á villta laxastofninum?