145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins inn í umræðuna. Hæstv. ráðherra leggur hér fram tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Verkefnisstjórn 3. áfanga hefur lagt þessa tillögu fram til ráðherra og ráðherra flytur hana óbreytta hér í þinginu. Eins og við vitum eru ekki margir dagar eftir af þessu þingi sem nú starfar, svo maður veltir fyrir sér hvort hæstv. ráðherra reikni með að þessi þingsályktunartillaga fáist afgreidd á þessu þingi fyrir þær kosningar sem fram undan eru. Ég veit ekki alveg hvort hægt er að meta það þannig að það sé málinu til góðs eða ills, hvort það bíður eða bíður ekki, það er svona umhugsunarefni, finnst mér. Þetta er stórt og mikið mál sem hefur verið í vinnslu og faghópar hafa farið í gegnum það, og leggja þetta til. Þetta er auðvitað í mörgum tilfellum ákveðinn salómonsdómur og kannski eins og formaður verkefnisstjórnar hefur orðað það að það eru allir óánægðir með eitthvað hver úr sinni áttinni, bæði þeir sem vilja meira í vernd og þeir sem vilja meiri nýtingu og þeir sem vilja hvað varðar neðri hluta Þjórsár skoða enn frekar áhrif virkjana á þann laxastofn sem er einstakur þar og hvað verður um afdrif hans ef neðri hluti Þjórsár fer í orkunýtingu og virkjað verður þar. Það eru auðvitað ótal spurningar þarna sem ekki er svarað og varla getur maður reiknað með að það náist að fjalla með vönduðum hætti um þetta á þeim stutta tíma sem eftir er af þinginu.

Ég hef sagt að ég met það verkfæri, sem rammaáætlun er, mikils og tel hana vera það verkfæri sem við höfum komið okkur saman um og eigum að nýta. Auðvitað getur alltaf orðið sú niðurstaða að menn af ýmsum ástæðum greiði ekki atkvæði með endanlegri tillögu sem kemur fram af hálfu verkefnisstjórnar hverju sinni og menn verða líka að hafa frelsi til þess að hafa ólíkar skoðanir í þeim efnum. En þarna tel ég að menn séu að reyna að nálgast og mætast í sjónarmiðum í þessum málum með mikilli vinnu faghópa í að greina og flokka þessa kosti og eftir þeirri aðferðafræði sem nefndin vinnur eftir. Ég hef lagt mikið traust á þá verkefnisstjórn sem hefur verið að störfum. Hún var skipuð í mars 2013 og skipunartími hennar rennur út í mars 2017. Ég tel að við höfum verið mjög heppin með fagfólk þar innan borðs og nefni að öðrum ólöstuðum formann verkefnisstjórnarinnar, Stefán Gíslason, sem er mikill fagmaður á þessu sviði og leggur stund á mjög vönduð vinnubrögð.

Það er líka rétt að oftar en ekki hefur komið fram að fjármuni skortir í það að faghópar hafi getað unnið sem skyldi. Það er líka eitthvað sem við þurfum að taka til okkar hér, fjárveitingavaldið og viðkomandi ráðherra, að tryggja nægt fjármagn til þessarar vinnu svo vel að verki sé staðið og það dragist ekki vegna fjármagnsskorts. Og það sem hefur líka verið gagnrýnt að þegar ákveðin svæði eru komin í vernd og friðlýsingu þá er eins og það ferli stoppi, friðlýsingarferlið, og það dragist að ljúka þeim málum, hvort sem er vegna skorts á fjármagni eða annarra hluta. En mér finnst mjög mikilvægt að koma þeim svæðum sem hafa verið friðlýst í algjört skjól og friðlýsingu og því ferli ljúki sem þarf til þess að svo verði.

Það eru þarna kostir sem hafa verið í umræðunni varðandi orkunýtingu, Skrokkalda, Þjórsá og þar undir Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun og Hvammsvirkjun var komin þarna inn. Svo er á Vestfjörðum Austurgil, Austurgilsvirkjun, Ófeigsfjörður, Hvalárvirkjun, Blanda og veituleið Blönduvirkjunar. Ef ég nefni aðeins það sem er á mínu stórheimasvæði á Vestfjörðum, þ.e. Hvalárvirkjun sem var í nýtingarflokki og er þar áfram, varðandi þessa niðurstöðu þá var Austurgilsvirkjun forsenda þess að þar yrði hægt að fara að virkja. Ég veit að heimamenn bíða þar óþreyjufullir eftir því að það verkefni fari af stað því að Vestfirðir eru þannig í sveit settir að þar vantar afhendingaröryggi rafmagns. Það væri gífurlega mikilvægt að fá þessa hringtengingu þar inn og spennivirki í botn Ísafjarðardjúps. Mér finnst að þetta sé svona að smella saman og það gæti orðið. Yrði það gífurleg framför fyrir þann fjórðung. Auðvitað leggja Vestfirðingar áherslu á að sú orka sem framleidd verður á því svæði nýtist til atvinnuuppbyggingar á Vestfjörðum. Ég held að nú sé kominn tími til að þar sé ýtt undir að þar geti atvinna og mannlíf blómstrað og þar sé hægt að koma af stað fyrirtækjum sem verða auðvitað engar stóriðjur á þeim mælikvarða sem við þekkjum hér á höfuðborgarsvæðinu og á Austfjörðum, heldur minni iðnfyrirtæki en skipta samt gífurlegu máli fyrir viðkomandi svæði og erum við þá að tala um kannski fyrirtæki sem mundu taka 10–30 megavött eða rúm 10 megavött kannski að meðaltali. Við þekkjum kalkþörungaverksmiðjuna á Bíldudal og annan iðnað sem er í pípunum ef af þessu yrði.

Ég tel að það eigi auðvitað að vanda vel til verka. Þessi tillaga er komin fram og þeir sem standa að henni eru aðilar sem hafa stundað vönduð vinnubrögð. Það má vel segja að það skorti einhverja þætti þarna inn til að gera þetta verkfæri, sem rammaáætlun er, enn betra og bæta í eins og samfélagsáhrif út frá mörgum forsendum og að styrkja ferlana í þessu, bæði aðkomu almennings á fyrri stigum varðandi umhverfismat og annað því um líkt, að hægt sé að koma að því, ekki bara í lokin þegar framkvæmdaleyfi liggur fyrir. Það er auðvitað hlutverk Alþingis hverju sinni að laga og bæta og læra af reynslunni. Ég held að það megi alltaf bæta öll þau verkfæri sem við höfum orðið sammála um. En þetta er verkfæri sem hefur náð þverpólitískt saman og við séum sammála um að vinna eftir. Það var mjög slæmt þegar atvinnuveganefnd á sínum tíma fór að rífa út úr vinnu verkefnisstjórnar ákveðna kosti og ætlaði einhliða að fara að leggja það fram, það er algjört stílbrot og er ekki til fyrirmyndar og segir ekkert til um vit þeirra sem eru í atvinnuveganefnd hvað varðar þennan málaflokk. Það lýsir frekar frekju en einhverju öðru og yfirgangi. Gott og vel. Það gekk ekki eftir og ég held að menn hafi lært af þeirri reynslu að vera ekki að taka eitthvað til sín sem við höfum verið sammála um sem þjóð og sem Alþingi að fela verkefnisstjórn rammaáætlunar að vinna að með sínum faghópum og leggja fyrir ráðherra og líka það umsagnarferli þar sem almenningur hefur möguleika á að gera athugasemdir við niðurstöðurnar. Ég held að heilt yfir sé þetta í góðum farvegi sem slíkt þó að við séum ekki endilega alltaf sammála um útkomuna. En það er okkar að vinna áfram með þetta á Alþingi sem gert verður.