145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki verið sátt við það að virkja neðri hluta Þjórsár og hef talað gegn því hér á þingi. Ég tel að meta eigi ýmsa aðra kosti og sjónrænir kostir skipta líka máli. Gildismat er með ýmsum hætti þó að það sem verkefnisstjórn hefur í höndunum segi kannski ekki til um það að eingöngu eigi að horfa til þess varðandi upplifun almennings af viðkomandi virkjunarkosti. En mér finnst að það eigi að draga það inn í og ég held að tíminn vinni með okkur í þeim efnum, okkur sem erum náttúruverndarsinnar og teljum að við eigum að fara varlega í að virkja. Ég tel að við þurfum að horfa til ýmissa fleiri kosta, verðmætagildis Urriðafoss og þessa svæðis sem við erum að tala um þar. Við vitum að þetta svæði, það sem við köllum vatnsaflsvirkjanir, er gegnumstreymi og hægt væri að draga það til baka afturkræft að einhverju leyti. En ég hef líka áhyggjur af þessum einstaka laxastofni í ánni. Ég held að full ástæða sé til að hafa áhyggjur af því.

Varðandi það hvort ég hafi áhyggjur af því að allt fari upp í loft ef málið fer í atvinnuveganefnd, og þar séu menn vígmóðir í þessum málum og vilji fara að krukka of mikið í þessu sjálfir — ég bara geri mér ekki grein fyrir því. Ég sit í atvinnuveganefnd en atvinnuveganefnd hættir störfum samhliða þinginu í lok þessa mánaðar svo að ég tel að ekki gefist mikill tími til að gera hvorki gott né slæmt í þeim efnum.